148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

vinna íslenskra stjórnvalda vegna innleiðingar þriðja orkupakka ESB.

499. mál
[16:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Virðulegi forseti. Ég ætla að þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör sem og þeim þingmönnum sem hafa tekið hér til máls og vona að þeir hafi allir áttað sig á því að tilgangur umræðunnar var nákvæmlega þessi, að fá staðreyndir upp á borðið og tala um hagsmunagæslu okkar.

Mér þykir ljóst af umræðunni að það er þörf á vitundarvakningu um mikilvægi samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og virkri þátttöku ráðherra í að tryggja að réttar upplýsingar um Evróputilskipanir og vinnuna við þær komist að í umræðunni. Við höfum einfaldlega ekki efni á því að grafið sé undan tiltrú almennings á samstarfinu á grundvelli rangra upplýsinga. Það er jafn hættulegt og það er mikilvægt að hafa réttar upplýsingar og ræða þær og þróunina.

Það er líka ljóst samkvæmt þessu að áhyggjur stjórnarflokkanna eru úr lausu lofti gripnar. En ráðherrar ríkisstjórnarinnar þurfa að beita sér fyrir því að auka tiltrú eigin flokksmanna á þeirri hagsmunagæslu sem þeir sinna og hefur verið sinnt í þessu alþjóðasamstarfi.

Það hefur komið fram að við höfum margvísleg og skýr tækifæri til að taka virkan þátt í mótun þeirra reglna sem eru innleiddar hér á grundvelli EES-samstarfsins. Það er mikilvægt að við búum svo um hnútana, m.a. með því að hafa til reiðu sérfræðinga sem geta beitt sér í málinu og vakandi stjórnmálamenn, að við getum nýtt okkur þessi tækifæri til hins ýtrasta.

Ef vilji er til að hafa enn meiri áhrif þá liggur náttúrlega beint við að þjóðin fái að kjósa um það að uppfæra EES-samninginn, upp um deild, með inngöngu í Evrópusambandið, en það er nú efni í aðra umræðu.

Mig langar til að ljúka máli mínu með annarri spurningu til hæstv. ráðherra, hún er þessi: Verður þetta mál lagt fyrir þing nú í vor? —Takk fyrir umræðuna.