148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla eins og hv. þingmaður sem talaði hér á undan mér að ræða um húsnæðismarkaðinn, þó með aðeins annarri nálgun. Að kvöldi 16. apríl sl. ræddum við einmitt um húsnæðismálin þegar hæstv. félagsmálaráðherra lagði fram breytingar á lögum um Íbúðalánasjóð. Við höfum átt samtal í þessum sal um þennan mikilvæga markað nokkuð oft og iðulega við hæstv. félagsmálaráðherra sem ber líka ábyrgð á húsnæðismálum.

Mig langar samt að velta aftur upp því sem ég ræddi þetta ágæta kvöld þegar voru kannski ekki jafn margir í þingsalnum og eru núna, hvort við séum á réttri braut þegar við dreifum þessari miklu ábyrgð á milli ráðherra. Því einmitt daginn eftir, eða 17. apríl, héldu Samtök iðnaðarins málþing um húsnæðismarkaðinn þar sem þau lögðu til að við myndum gera þá breytingu að einn ráðherra bæri ábyrgð á þessum markaði.

Það er nefnilega svo að í rauninni ber hæstv. umhverfisráðherra töluvert mikla ábyrgð á því sem fellur undir húsnæðismarkaðinn með því að bera ábyrgð á öllum skipulagsmálum og þar af leiðandi líka byggingarmálum, mannvirkjalögum og reglugerðum þar að lútandi. Hæstv. iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ber ábyrgð á iðngreininni sem slíkri og iðnaðinum, en mannvirkjaiðnaðurinn er auðvitað ein af stærstu iðngreinunum okkar. Svo erum við með hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem ber ábyrgð á málefnum sveitarfélaganna, en sveitarfélögin bera einmitt mikla ábyrgð á húsnæðismálum, skipulagsmálum og samgöngumálum.

Ég vil velta því upp í þessari ræðu minni hvort ekki sé löngu tímabært að við tökum þennan málaflokk upp og veltum fyrir okkur hvort það færi betur á því að það væri einn ráðherra sem bæri heildstæða ábyrgð á málaflokknum sem slíkum.

Svo ætla ég að nota síðustu sekúndurnar mína í að segja það líka að ég trúi því varla að árið 2018 reiðum við okkur enn þá á ágætar upplýsingar frá Samtökum iðnaðarins sem eru handunnar og handtaldar, á tölvuöldinni miklu þar sem í rauninni öll þessi gögn liggja fyrir hjá sveitarfélögum eða mismunandi aðilum. Það er ótrúlegt (Forseti hringir.) að okkur hafi ekki tekist að setja þetta allt saman í góðan gagnagrunn sem allir (Forseti hringir.) aðilar sem hafa not fyrir þessar upplýsingar gætu nýtt sér.