148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Fjölnir Sæmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að ræða um ástand löggæslumála á Íslandi. Lögreglumönnum á Íslandi hefur fækkað mikið undanfarna áratugi á meðan verkefnum þeirra og Íslendingum og ferðamönnum hefur fjölgað á sama tíma. Ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað um 200% undanfarinn áratug. Bifreiðum á götunum hefur fjölgað um 50%. Á sama tíma hefur lögreglumönnum á Íslandi fækkað um 11%. Samkvæmt löggæsluáætlun sem nær til ársins 2012 átti æskilegur fjöldi lögreglumanna það ár að vera 804. Í dag eru starfandi 660 lögreglumenn á landinu.

Ekki er til nýrri löggæsluáætlun en sem nær til ársins 2012, en samkvæmt upplýsingum á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins átti að vera tilbúin löggæsluáætlun í mars 2017. Miðað við löggæsluáætlunina frá 2012 má varlega áætla að lögreglumönnum hefði að lágmarki átt að fjölga um 200 frá þeim tíma, ættu sem sagt að vera um 800. Það krefst mannskaps og tíma að rannsaka mál, útkall vegna heimilisofbeldis getur tekið margar klukkustundir. Rannsókn á kynferðisbrotum krefst mikillar þekkingar og getur tekið langan tíma. Það að upplýsa fjármunabrot sem hefur verið stundað og skipulagt árum saman er tímafrek rannsókn. Það þarf því ekki aðeins að fjölga þeim lögreglumönnum sem sinna útköllum heldur ekki síður þeim sem vinna að rannsóknum sakamála.

Það er réttur bæði brotaþola og geranda að mál þeirra séu unnin hratt og að niðurstaðan komi sem fyrst. Lögreglan sjálf getur auðvitað ekki kvartað mikið, hún getur ekki auglýst fámenni sitt. Hún getur ekki viðurkennt að hún búi við getuleysi á einhverjum sviðum. Með því væri hún beinlínis að draga úr öryggiskennd borgaranna. Hér þarf því Alþingi að grípa inn í.

Samkvæmt upplýsingum mínum bíða um 5 þúsund mál rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Það þýðir að þúsundir manna eru að bíða eftir lausn í sínum málum. Bara í kynferðisbrotadeild eru (Forseti hringir.) 200 mál sem bíða. Lögreglan er ein af grunnstoðum samfélagsins og allir íbúar landsins eiga að geta fengið þjónustu lögreglu hvenær sem er sólarhringsins með stuttum fyrirvara. Þannig tryggjum við öryggi og vellíðan.