148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða skipulag funda liðinnar nefndaviku. Fjárlaganefnd fundaði með öllum fagnefndum sameiginlega þar sem við fengum til fundar ráðherra og starfsfólk ráðuneyta tengdra málefnasviða. Við kláruðum þá fundaröð í dag með hv. atvinnuveganefnd og hæstv. ráðherra nýsköpunar og ferðamála.

Ég ætla að kasta fram skoðun minni á því fyrirkomulagi til ígrundunar fyrir aðra þingmenn og nefndarmenn. Ég tel að tíminn hafi verið vel nýttur og að fundirnir hafi heilt yfir gengið vel, auðvitað ekki hnökralaust. Dagskráin var þétt og einhverjir voru árekstrar hér og þar og álag sem þessu fylgir, þannig að þetta er auðvitað ekki gallalaust fyrirkomulag. Til að mynda verður tíminn sem gefst fyrir hvern og einn nefndarmann til að spyrja spurninga, knappari fyrir vikið. En mér fannst þetta fyrirkomulag gefast býsna vel og nefndarmenn sýna því þolinmæði og skilning sem ég nefndi hér. Það er ekki sjálfgefið.

Ég vil þakka fyrir þessa samvinnu og nefndariturum fyrir að koma þessu heim og saman. Mér finnst að við eigum endilega að fara yfir þetta fyrirkomulag og ræða það hvort það sé eitthvað sem við viljum byggja á og útfæra þegar við förum í gegnum mál af þessu tagi, eins og ríkisfjármálaáætlun og ríkisfjármálastefnu og jafnvel fjárlög, þá með tilliti til tímans og hvernig hann nýttist í nefndunum. Þær þurfa auðvitað að sinna fjöldamörgum málum. En fyrst og fremst vildi ég, virðulegi forseti, þakka samstarfið í liðinni viku.