148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[16:40]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fór yfir það að það aflamagn sem áætlað er í strandveiðar er mjög ríflegt miðað við alla útreikninga; miðað við það hve margir bátar hafa verið að stunda strandveiðar og miðað það magn sem hefur farið í strandveiðar. Við erum þar vel innan allra öryggismarka og ráðherra hefur vissulega þá heimild að bæta við ef lausar aflaheimildir eru í kerfinu, ef á þarf að halda.

Varðandi það að allar aflaheimildir muni færast á A-svæði: A-svæði hefur staðið frammi fyrir því að þar hafi verið fáir dagar, færri dagar en á öðrum svæðum. Svæðin eru ólík innbyrðis varðandi fiskgengd. Þar hefur eðlilega verið óánægja með að það séu mikli færri dagar, en það magn sem fer á hvert svæði er í sjálfu ekkert heilög tala sem er bara fundin upp einhvers staðar sem hinn eini og sanni sannleikur. Menn hafa auðvitað verið að deila um það sín á milli. Með því að tryggja öllum tólf daga hvar sem er á landinu og gera strandveiðar þannig sveigjanlegar og öruggar erum við að horfa fram á jafnræði.

Eins og ég hef nefnt ræðst fiskirí á hvern dag á hvern bát, sama á hvaða svæði hann er, af því hvort veður er til sjósóknar í tólf daga hvern mánuð; það verður breytan sem skiptir máli af því að það er ekki eitthvert magn sem fer á hvern bát fyrir sig, þetta er ekki kvótasetning. Þetta mun alltaf hafa áhrif á það hvernig gengur á milli svæða. Aflaheimildir hafa verið að brenna inni á svæðum eins og D-svæði. Önnur svæði hafa farið aðeins fram úr. En ég held að þetta sé mjög góð tilraun (Forseti hringir.) og sjómenn á öllum þessum svæðum hafa (Forseti hringir.) talað um að ef 48 dagar séu þarna undir séu þeir mjög ánægðir með að (Forseti hringir.) þetta verði útfært á þann veg.

(Forseti (ÞorS): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk.)