148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[16:44]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel það ekki vera neitt áhyggjuefni að það magn sem er þarna til ráðstöfunar dugi ekki. Menn mega heldur ekki mála skrattann á vegginn í þeim efnum og hræða sjómenn á viðkomandi svæðum með því að það eigi eftir að gerast. Við höfum allan talnagrunninn undir til samanburðar og til að sýna fram á að um 80% líkur eru á því að þetta dugi. Þar fyrir utan er það magn sem áætlað er til strandveiða verðmætara vegna þess að ufsinn er ekki þar með, alfarið tekinn út úr aflamagni hvers dags. En það að fleiri bátar séu á A-svæði en öðrum — þetta er atvinnurekstur og hver og einn ákveður hvort hann fer í sjósókn, hvort hann gerir út strandveiðibát. Það bannar enginn eða hvetur einn eða neinn til að gera út bát (Forseti hringir.) eftir landsvæðum, það verða sjómennirnir sjálfir að ákveða. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) — Potturinn er einn, hann er fyrir alla og allir fá tólf daga.