148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[17:12]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekkert að orðlengja þetta mikið, en þeir komu inn á það, hv. þm. Smári McCarthy og hv. þm. Jón Gunnarsson, sem ég var að hugsa um. Þegar við fengum gesti fyrir nefndina í atvinnuveganefnd þá komu einmitt sjómenn af því svæði sem þingmaðurinn hefur áhyggjur af, svæði D, og sögðust vera sáttir við þetta og bara nokkuð ánægðir ef 12 dagar væru tryggðir, þá væru þeir sammála um þessa breytingu. En ég velti fyrir mér: Er þingmaðurinn að leggja til að ráðherrann hafi þá vald til að stoppa veiðar á öðrum svæðum til að svæði D fái sannarlega að klára sína 12 daga? Það leggst ekki vel í mig alla vega.

Ég trúi því að það sem er í frumvarpinu og við höfum verið að ræða dugi miðað við þær forsendur sem hefur verið reiknað út frá. Ég er alveg viss um að allir þessir 48 dagar á hvern bát hringinn í kringum landið verða aldrei fullnýttir. Kannski tek ég stórt upp í mig þegar ég segi það, en það væri gott ef þingmaðurinn myndi aðeins útlista betur fyrir mér hvað hann var að meina með þessari tillögu og hvernig hann orðaði hana.