148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[18:14]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Hér er um stórt og mikið mál að ræða, eins og alltaf þegar um er að ræða stjórn fiskveiða. Stjórn fiskveiða hefur verið eitt af stóru hagsmunamálum þessarar þjóðar og skiptir miklu að hafa vissa hluti á hreinu um hvernig til hafi tekist. Mig langar að fara yfir nokkur sjónarmið í þessum málum án þess að fara nákvæmlega í það frumvarp sem hér er til umræðu.

Að sjálfsögðu getur maður tekið undir markmið þessa frumvarps, að auka öryggi sjómanna. Ég held að við séum öll sammála um að mjög mikilvægt sé að gera það sem best. En það er margt annað sem kemur til við að ná þessu mikla og góða markmiði. Strandveiðikerfið var sett á til að reyna að auka töluvert sáttina um stjórn fiskveiða og nýtinguna á auðlindinni. Ég held að það sé mikilvægt að ná því líka. Þá er spurning hvernig við gerum það á sem bestan hátt.

Svo er annað í þessu líka. Það verður líka að huga að því hvernig þetta gagnast byggðunum sem best, sem er undirrótin að þessu öllu saman, ein þeirra; þetta átti að vera til að ná sátt um það og líka að reyna að glæða sjávarbyggðirnar og hafnir landsins lífi á ný. Hvernig náum við því sem best fram? Ég held að það hafi sýnt sig að núverandi kerfi við stjórn fiskveiða er ein besta leiðin sem við náum. Þar er fyrirsjáanleikinn, þar náum við mestu hagkvæmninni. En eitt hefur kannski ekki tekist þar, þ.e. að halda litlum og meðalstórum útgerðum um landið. Þá megum við ekki gleyma umræðum um hluta af skýringunni — var kannski ekki eina ástæðan — á því að það tókst ekki. Af hverju hefur litlum og meðalstórum útgerðum fækkað svona rosalega hringinn í kringum landið og starfsemin farið á færri hendur? Ég held að þar komi tvennt til; annars vegar þær álögur sem við leggjum á útgerðina í gegnum veiðileyfagjöldin. Eftir að þau komu hefur samþjöppunin aukist. Hins vegar: Þegar þessi 5,3% pottur var búinn til, sem strandveiðikerfið er og við ræðum hér, tók það aðeins hagkvæmnina út úr mörgum þessum útgerðum. Það varð til þess að þær náðu ekki að reka sig og þá byrjaði þessi samþjöppun til að ná þeirri hagræðingu inn.

Það þurfti sem sé hagræðingu út af því að aflaheimildirnar drógust saman og auknar álögur voru í formi veiðigjalda. Þess vegna finnst mér gríðarlega mikilvægt, og þykir vænt um þá umræðu sem hefur verið hér um þetta mál í dag, að við erum alltaf að tala um að þessi aukning og það svigrúm sem við höfum við að laga og bæta strandveiðikerfið sé innan þessara 5,3%. Ég skynja það af umræðunni hér í dag og tel afar mikilvægt að svo sé til þess að við höggvum ekki enn frekar í þær útgerðir, litlu og meðalstóru, sem þó eru eftir úti um landið. Ég tel afar mikilvægt að það sé alveg á hreinu og við séum velunnarar þeirra.

Frumvarp þetta gengur út á tilraun til eins árs til að sjá hvernig markmiðin gangi. Þá erum við að horfa á öryggismálin og vitanlega líka byggðamála, hvernig reksturinn gangi hjá þeim sem eru í þessu. 5,3% potturinn hefur einmitt verið í þessu, að reyna að jafna á milli svæða og vera þessi byggðastuðningur, þessi öryggisventill sem ríkið hefur til að reyna að mæta þeim áföllum sem mörg sjávarpláss hringinn í kringum landið hafa orðið fyrir. Þess vegna held ég að við þá endurskoðun sem fer fram strax í haust, eins og hv. formaður atvinnuveganefndar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, kom inn á, sé allt kerfið undir, ekki bara strandveiðarnar heldur byggðakvótinn og sérstakur byggðakvóti Byggðastofnunar líka. Það sé allt saman undir. Hvernig nýtum við þessi 5,3% sem best fyrir byggðir landsins? Er það með því að stækka strandveiðikerfið enn þá meira? Eða með því að breyta eitthvað byggðakvótunum? Það þarf líka að fara út í það hverju þetta hefur skilað. Hefur eitthvað af þessum kerfum skilað heils árs starfi, framtíðarstarfi, í byggðunum? Hefur þetta skilað einhverri atvinnufestu í byggðunum?

Þá þurfum við líka að þora að ræða það heiðarlega að það gæti hjálpað að skila einhverju af 5,3% aftur til lítilla og meðalstórra útgerða sem enn eru í byggðunum til að ná upp hagkvæmni þeirra og draga úr líkunum á að allar þessar útgerðir fari inn í stórútgerðina. Við þurfum að þora að spyrja þessara spurninga líka, hvaða áhrif þetta hefur haft, hvernig okkur hefur tekist til. Við verðum líka að gera okkur grein fyrir einu í þessari umræðu: Þessi sameiginlega auðlind þjóðarinnar, hvernig viljum við nýta hana og hvernig teljum við að hún nýtist sem best? Viljum við nýta hana sem byggðamál þannig að við tryggjum atvinnu í öllum byggðum landsins vítt og breitt? Eða viljum við nýta þessa auðlind þannig að við fáum sem flestar krónur beint í ríkiskassann? Eða viljum við fá þær í gegnum afleidda starfsemi hringinn í kringum landið og halda landinu í byggð? Eða viljum við að auðlindin skili sem mestu í ríkissjóð í krónum talið? Ég held að við getum ekki gert bæði. Ég held að íslenskur sjávarútvegur geti ekki skilað hárri fjárhæð beint í ríkissjóð í formi gjalda án þess að hagræða mikið sem kallar á mikla samþjöppun; sem ég held að fæstir kalli eftir.

Þó ætla ég að segja að ekki er endilega samasemmerki milli stórra útgerða og hagkvæmni í sjávarútvegi. Lítil og meðalstór fyrirtæki geta verið mjög hagkvæm í rekstri ef þau hafa réttan afla miðað við stærð. Það er það sem ég kom inn á áðan. Ég held að sú hagkvæmni hafi mikið farið þegar skerðingin kom til að búa til 5,3% eða hluta af því. Ég held að við verðum að vera opin fyrir öllum þessum vangaveltum og staðreyndum um þetta mál til að tryggja það sem við viljum, sem er að útgerðin lifi áfram í byggðum landsins.

Varðandi það hvort sú aukning sem hér er muni duga: Allir útreikningar sýna það í dag. En við megum samt ekki loka augunum fyrir því að ef við erum að færast nær og nær núverandi kerfi við stjórn fiskveiða, með strandveiðarnar þá erum við að tala um að fyrirsjáanleikinn verður meiri og eftir meiri afla að slægjast á sumum svæðum, ef þú færð fleiri daga en áður. Það getur hvatt fleiri til að koma inn í kerfið. Það er eitthvað sem erfitt er að spá fyrir um, hvort muni fjölga mikið í kerfinu og á hvaða svæðum. Svo verður líka að fylgjast mjög vel með því hvort einhverjir bátar verði skráðir á önnur svæði nú en á síðasta ári. Verður eitthvað sem gerist til þess að nýta þetta kerfi sem best sem við erum að gera tilraun með hér? Mun bátum fjölga óeðlilega mikið á einu svæði eða fækka? Það þarf að fylgjast vel með því.

Þá segi ég aftur: Ef eitthvað svona gerist, ef það fjölgar verulega í kerfinu, ef skráningarnar verða þannig, sem ég er ekkert að segja að verði en getur gerst, að það verður meiri skráning á það svæði sem er líklegast að geti notað tólf dagana í flestum mánuðum til að fá sem mestan afla, þá er mikilvægt að við förum ekki upp fyrir 5,3% til að tryggja að öll svæði hafi opið 48 daga.

Þetta er alltaf mikil umræða, hvernig við tryggjum byggðirnar. Við þurfum að tryggja öryggið í strandveiðunum en megum ekki fara með þær svo langt að þær verði hluti af stóra fiskveiðistjórnarkerfinu. En við vitum að ef við ætlum að tryggja öryggið og það besta fyrir byggðirnar myndum við gera það þannig. En við verðum að sætta okkur við að við náum aldrei að fara með strandveiðarnar þangað ef við ætlum að hafa þetta þannig kerfi sem vill hleypa sem flestum inn svo að sem flestir fái að nýta auðlindina með beinum hætti; ekki fá óbeinan ávinning af henni heldur beinan með því að fara að veiða.

Þetta er ekki einfalt mál. Vissa hluti þarf að sætta sig við og aðra þarf að þora að ræða og taka til skoðunar sem ég vona að verði gert strax í haust. Ég vona svo innilega, ef það verður niðurstaða Alþingis að fara í þessa tilraun, að hún takist sem best við að tryggja öryggi sjómanna og að svæðin öll komi á jafnræðisgrundvelli út úr þessari breytingu.