148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[16:23]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér eru merk tímamót þar sem við erum raunverulega að leiða í lög samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks og hann lagður til grundvallar í rýni og endurskoðun laganna við undirbúning frumvarpanna og þannig setjum við í lög þau mannréttindi sem í samningnum felast. Og við lögfestum að auki NPA.

Lagafrumvarpið um málefni fatlaðs fólks með miklar stuðningsþarfir fellir úr gildi eldri lög og kemur sem viðbótarréttur við það frumvarp sem við greiðum atkvæði um á eftir og verður breyting við félagsþjónustulögin.

Ég þakka fjölmörgum hagaðilum fyrir að leggja þessari vinnu lið frá skipan starfshóps um endurskoðun laganna og frumvarpssmíðina, mjög óeigingjarna vinnu og að fylgja henni eftir með umsögnum og samtali við þingið og hv. velferðarnefnd. Ég þakka afar vandaða vinnu.