148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

ættleiðingar.

128. mál
[17:50]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir hans ágætu framsögu. Ég vil taka það fram í upphafi að ég tel að hér sé um mjög gott mál að ræða og fagna því að hv. þingmaður ásamt fyrsta flutningsmanni, Vilhjálmi Árnasyni, skuli hafa fylgt þessu mál vel eftir og komið því hingað inn í þingsal til 2. umr.

Ég er aðeins að velta fyrir mér, það er kannski meira tæknilegt atriði í sambandi við lögin, hvort það hafi komið upp í umræðum nefndarinnar að það þyrftu að vera vísanir í breytingarákvæðinu, þ.e. 11. gr., í 17. gr. laga um ættleiðingar, um umsagnir og umsagnarferli. Það eru ekki millivísanir þarna á milli. Ég velti fyrir mér hvort nefndin hafi komið inn á það í sínum störfum að þess þyrfti.