148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[14:10]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum búin að glíma við þetta frumvarp glöð gegnumheilt. Okkur finnst afskaplega spennandi að sjá hvað kemur út úr því í haust. Það er aðeins eitt sem mig langar til að koma hér á framfæri sem ég hefði viljað ganga pínulítið lengra með, þó að við séum náttúrlega að gera okkar besta og mætumst á miðri leið til að þetta megi verða að veruleika, en það er nákvæmlega það sem lýtur að ufsanum. Við erum að tvöfalda heimildir í ufsa úr 350 tonnum í 700 tonn. Það er búið að auka vægi sjómannsins gagnvart verðmætinu upp í 80%, en 20% eiga síðan að ganga til Hafró. Ég sá hins vegar ekkert því til fyrirstöðu að hafa þetta 100% til sjómannsins. Mér fannst liggja í því ákveðin hvatning til að nýta hráefnið og koma örugglega með það að landi. Þrátt fyrir að stundum sé meðalafli ufsa ekki hár myndum við tryggja það frekar að ekki yrði um brottkast að ræða.

Það var á þeim forsendum og líka það að við sendum skýr skilaboð til sjómannanna okkar: Við erum öll af vilja gerð og viljum hag ykkar sem mestan og bestan. Ég ætla ekkert að hafa fleiri orð um það, nema ég er bara afskaplega glöð með að fá að taka þátt í þessu og vera með. Sem varaformaður atvinnuveganefndar segi ég aftur: Gangi ykkur öllum sem allra best.