148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[14:29]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Það hefur verið nefnt í umræðunni um þetta mál að í þinginu séu nokkuð skiptar skoðanir um það. Það er kannski til marks um það að ég og síðasti ræðumaður, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, erum ekki alveg sammála í þessu máli, þess vegna vildi ég taka aðeins til máls. Ég hef verulegar áhyggjur af því hvernig að þessu máli hefur verið búið og í raun og veru á hvaða vegferð menn eru með strandveiðarnar.

Ég hef ekki sannfæringu fyrir því, eftir að hafa farið yfir málið eins og það kom fyrir í 2. umr. og með þeim breytingartillögum sem hér eru komnar fram, að það sé verið að stíga skref til góðs við stjórn strandveiða. Ég tek undir að það er alveg gríðarlega mikilvægt að vel sé hlúð að strandveiðunum og að það takist að þróa þetta kerfi áfram með öryggismál sjómanna að leiðarljósi, en ekki síður grundvallarsjónarmið í fiskveiðistjórn okkar, sem er sjálfbær stjórn fiskveiða og arðsemi veiðanna, en það síðastnefnda hefur auðvitað verið verulega vandasamt í strandveiðunum í sóknarkerfi eins og gjarnan vill verða.

Ég ætla að fara yfir mínar helstu áhyggjur í ekki of löngu máli. Það olli mér raunar nokkrum vonbrigðum miðað við þá gagnrýni sem kom fram í 2. umr. um málið hversu litlar lagfæringar eru gerðar á kerfinu.

Í fyrsta lagi er það stjórn veiðanna. Mér sýnist að það sé verið að losa mjög verulega um stjórn veiðanna og heimildum til þess að stöðva veiðar þegar hámarksafla er náð. Ég fæ ekki betur séð en að það sé beinlínis markmiðið, m.a. með því að færa lokunarheimildina frá Fiskistofu til ráðherra, að búa til eitthvert loðið, óljóst svæði um hvenær skuli stöðva veiðar. Það þýðir að ýtt er undir mögulega ofveiði í kerfinu og samt er verið að bæta töluverðum heimildum inn í það.

Ég held að það þurfi ekki mikinn og flókinn framreikning í þessu til að sjá, ef við horfum bara til meðalafla þeirra báta sem voru í kerfinu á síðasta ári, ef við framreiknum það gróflega, að aflaheimildir, þótt verið sé að auka við þær, gætu verið uppurnar á þriðja mánuði. Þá kemur verulegur þrýstingur á ráðherra. Á að stöðva veiðar með heilan mánuð eða meira til loka veiðitímabilsins, eða á að auka verulega í? Það finnst mér ekki vera í anda við meginstef okkar í fiskveiðistjórn um sjálfbæra stjórn fiskveiða og það sé alveg skýrt hvernig við stýrum veiðum okkar. Það er eitt af því sem hafði þó tekist vel til með í strandveiðikerfinu eins og það var, að stýra einmitt veiðunum með því að loka viðkomandi svæðum þegar heimildir hvers mánaðar voru uppurnar. Hér sýnist mér að það sé losað verulega um það og veruleg hætta á því að það verði farið talsvert fram úr veiðiheimildum.

Ég hef líka dálitlar áhyggjur af því að annar þrýstingur í þessu verði einmitt ásókn í önnur svæði, það er alveg augljóst. Það er gripið til einhverrar bráðabirgðareddingar um að banna í raun og veru nýskráningar inn á ný svæði í dag, sem mér finnst í fyrsta lagi ganga gegn anda strandveiðanna sem er frelsi til veiða. Ég velti fyrir mér af hverju í ósköpunum við erum að stíga það skref að loka hálfpartinn svæðunum með þessum hætti til bráðabirgða. Í öðru lagi og það sem skiptir kannski meira máli er að við fáum enga reynslu á það sem er kannski meginbreytingin sem þetta fyrirkomulag mun hafa í för með sér, að bátar munu væntanlega leita á milli svæða, en við ætlum bara að loka fyrir það í tilraunastarfsemi í eitt ár og meta svo árangurinn af breytingunni í haust. Það mun ekkert reyna á þennan þátt í kerfinu á þessum tilraunatíma, þar af leiðandi getum við ekki lagt neitt mat á það hvernig það þróast. Þess vegna finnst mér það mjög sérkennileg ráðstöfun að fara í svona bráðabirgðareddingu til þess að taka á einum augljósum galla í því fyrirkomulagi sem hér er verið að taka upp.

Ég verð að segja eins og er að ég hef ekki mikla sannfæringu fyrir því að þetta muni virka eins og að er stefnt, þ.e. að auka öryggi sjómanna. Sóknarkerfið ýtir einfaldlega undir þessar ólympísku veiðar eins og hér hefur verið lýst. Það er alltaf hættan sem fylgir sóknarkerfinu, það er bara það fyrirkomulag sem við búum við í slíku kerfi. Ég held að eina leiðin til þess að taka virkilega á öryggismálum sjómanna væri með annars konar kerfi um strandveiðar sem væri meira byggt á staðbundnum aflaheimildum eða einhverju þess háttar. Það er allt annars konar kerfi og kallar á gagngera endurskoðun.

Í stuttu máli tel ég að hér sé klárlega ekki vandað til verks. Ég tek undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að þetta gæti jafnvel orðið þinginu til vansa þegar upp verður staðið. Það er verið að vinna þetta of hratt með of stuttum fyrirvara og það er of lítill gaumur gefinn að þeim göllum, verulegum ágöllum, sem eru á kerfinu að mínu viti. Ég óttast að við séum einfaldlega að þróa strandveiðarnar í kolranga átt miðað við það sem við ættum að vera að gera til þess að tryggja sjálfbærni veiðanna og um leið öryggi sjómanna og afkomu. Þess vegna treysti ég mér ekki til þess að veita þessu máli stuðning.