148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

siðareglur fyrir alþingismenn.

443. mál
[15:18]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi framsetningu flutningsmanna geta menn einfaldlega farið á heimasíðu Alþingis og skoðað að sá sem hér talar og hv. þingmenn Guðjón S. Brjánsson, Brynjar Níelsson, Þorsteinn Sæmundsson, Þórunn Egilsdóttir, Jón Þór Ólafsson og Bryndís Haraldsdóttir skipa forsætisnefnd Alþingis. Hv. þingmenn Þorsteinn Víglundsson og Inga Sæland eru áheyrnarfulltrúar sinna flokka í forsætisnefnd. Ég held að það sé fullgild framsetning á málinu að viðkomandi þingmenn leggi, í krafti embætta sinna þarna, nöfn sín við þennan tillöguflutning.

Varðandi forsendur þess að unnt sé að taka mál upp í forsætisnefnd eru siðareglurnar sjálfar bærilega skýrar í þeim efnum. Ég held að einfaldast sé að vísa til þeirra sjálfra. Ef á vafaatriði reynir í þessum efnum hygg ég að málinu sem vísað væri til nefndarinnar yrði leyft að njóta vafans. Menn myndu a.m.k. taka fyrir hvort viðkomandi erindi væri tækt til umfjöllunar. Á það hefur vissulega áður reynt. Ég held að það sé ekki enn nein reynsla komin á það að forsætisnefnd ýti frá sér að óathuguðu máli ábendingum eða málum sem til hennar er vísað.