148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

siðareglur fyrir alþingismenn.

443. mál
[15:32]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að fagna þeirri tillögu sem er hér til umræðu. Ég held að þetta sé mjög gott skref í rétta átt og mér finnst mikilvægt að þetta sé einmitt rætt sérstaklega í siðareglum alþingismanna. Hvarvetna í heiminum hefur orðið mikil vakning um hvers konar kynbundið ofbeldi og áreitni, undir myllumerkinu #metoo, og það hefur einnig gerst hér á landi. Þessari vakningu er ætlað að draga ofbeldið fram í dagsljósið, ofbeldið sem hefur verið í myrkri og skúmaskotum hingað til. Þetta er einnig liður í að breyta menningu samfélaga á þann hátt að kynbundið ofbeldi og áreitni verði ekki lengur liðið. Það skiptir miklu máli að Alþingi Íslendinga, þó að þetta sé ekki venjulegur vinnustaður, taki þátt í þessu, ekki síst vegna þess að kynbundnu ofbeldi og áreitni hefur verið beitt til að halda konum niðri í pólitíkinni með árangursríkum hætti. Um það vitna á annað hundrað frásagnir kvenna, stjórnmálakvenna, sem stigu fram í nóvember síðastliðnum og sögðu sína sögu af ofbeldi og mismunun sem þær höfðu þurft að þola. Um leið var þess krafist að karlar axli ábyrgð og málið yrði tekið upp innan stjórnmálaflokkanna. Það hefur verið gert innan Samfylkingarinnar og ég veit ekki betur en að aðrir stjórnmálaflokkar séu að gera slíkt hið sama.

Í kjölfarið voru birt hundruð sagna úr ýmsum geirum samfélagsins þar sem konur stigu fram og sögðu sína sögu. Þetta er alvarleg meinsemd í samfélaginu sem þarna var dregin fram. #metoo-byltingunni þarf að halda áfram. Það þarf að ýta undir þróunina og passa að þetta fari ekki aftur í sama farið, svo að við höfum í raun stigið þarna skref til að breyta samfélaginu og látum ekki svona ofbeldi líðast. En það á auðvitað líka við um einelti og aðra vanvirðandi framkomu eins og rætt er um í þessum tillögum.

Herra forseti. Ég fagna þessu skrefi. Ég veit að við höfum ekki klárað þessa vinnu, ég veit að við höldum henni vakandi. Ég vona að við séum öll einhuga í þessum sal um að hafi kynbundið ofbeldi og áreitni verið nýtt hér nýlega til að halda konum niðri þá sé það liðin tíð; að þetta sé búið og við breytum samfélaginu saman til betri vegar hvað þetta varðar.