148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

kvikmyndalög.

465. mál
[16:48]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér verður mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á kvikmyndalögum, nr. 137/2001, með síðari breytingum. Frumvarpið er samið í mennta- og menningarmálaráðuneytinu í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Meginmarkmið laganna er að efla kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu á Íslandi. Segja má að inntak frumvarpsins skiptist í tvennt, annars vegar er verið að heimila að umsækjendur frá öðrum EES-ríkjum geti sótt um stuðning til Kvikmyndasjóðs, hins vegar er verið að gera margvíslegar úrbætur á kvikmyndalögum sem lúti að því að skýra þau betur og auka gagnsæi og jafnræði.

Breytingar á lögunum lúta m.a. að því að umsækjendur frá öðrum EES-ríkjum geti sótt um styrki til Kvikmyndasjóðs, en jafnframt er verið að setja ítarlegri skilyrði en nú eru um að fjárstuðningur verði einungis veittur vegna íslenskra kvikmynda, kvikmynda sem eru á íslenskri tungu og hafa íslenska menningarlega eða samfélagslega skírskotun. Þessi fyrirmynd og hvernig er farið í þessar breytingar tekur mið af dönsku kvikmyndalögunum.

Hingað til hafa úthlutanir Kvikmyndasjóðs einskorðast við íslenskar kvikmyndir sem samkvæmt kvikmyndalögum eru kvikmyndir sem eru unnar eða kostaðar af íslenskum aðilum eða eru samstarfsverkefni íslenskra og erlendra aðila. Slíkar úthlutanir þar sem ekki er gert ráð fyrir styrkgreiðslum til framleiðenda sem hafa staðfestu í öðrum EES-ríkjum eða fela í sér aðrar beinar eða óbeinar kröfur um þjóðerni, eru ekki í samræmi við leiðbeinandi reglur ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA um þessi mál. Það kemur fram í 46. mgr. þeirra að m.a. þurfi að tryggja að meginregla 4. gr. EES-samningsins sem bannar mismunun á grundvelli þjóðernis sé virt við framkvæmd ákvæða um aðstoð til kvikmyndagerðar.

Virðulegi forseti. Engu að síður er heimilt í ríkjunum samkvæmt 24. mgr. reglnanna að styðja sérstaklega við tungumál sem talað er á litlu málsvæði eins og á við um íslensku.

Endurspegla þarf með ótvíræðum hætti í lögum rétt einstaklinga og lögaðila á grundvelli EES-samningsins og talið er eðlilegt að gera það með því að lögfesta ákvæði um bann við mismunun á grundvelli þjóðernis.

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að gera grein fyrir öðrum meginbreytingum sem eru í sex liðum á kvikmyndalögunum.

Í fyrsta lagi er verið að skerpa á hlutverki kvikmyndaráðs og bregðast við athugasemdum Kvikmyndasafns Íslands. Í 2. gr. er þess vegna breytt á þann veg að Félag leikskálda og handritshöfunda tilnefnir fulltrúa í kvikmyndaráð. Ég tel að þetta sé til verulegra bóta og verði til þess að breiddin verði meiri í kvikmyndaráði.

Í öðru lagi er verið að skýra betur verkaskiptingu milli annars vegar Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og hins vegar Kvikmyndasjóðs, þ.e. Kvikmyndamiðstöðin hafi umsjón með rekstri og starfsemi Kvikmyndasjóðs, en hlutverk Kvikmyndasjóðs sé að efla íslenska kvikmyndagerð með fjárstuðningi.

Í þriðja lagi er verið að setja nýja málsgrein um hámark á skipunartíma forstöðumanns, en það er til samræmis við aðra sambærilega forstöðumenn. Hámarkstími nú verður 10 ár.

Í fjórða lagi er komið inn nýtt ákvæði sem heimilar að veita sýningarstyrki sem voru á tímabili veittir til þess að vega upp á móti tekjutapi kvikmyndaiðnaðarins þegar virðisaukaskattur var lagður á aðgöngumiða. Gert er ráð fyrir þessu í fjárveitingum til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Í fimmta lagi er verið að lögfesta hlutverk kvikmyndaráðgjafa og sett inn að forsendur sem lagðar eru til grundvallar mati þeirra skuli koma fram í reglugerð. Fjallað er í fyrsta sinn um að um kvikmyndaráðgjafa gildi hæfisreglur stjórnsýslulaga.

Í sjötta lagi er komið inn á ákveðið aðhaldssjónarmið, þ.e. að heildarfjárhæð styrks verði ekki umfram þær viðmiðanir sem kveðið er á um í reglum. Komi í ljós að skilyrði í þessum lögum eða reglugerð hafi ekki verið uppfyllt og/eða kostnaður vegna verkefnisins lægri en gert er ráð fyrir í umsögn sem nemur styrktarfjárhæð er var miðuð við, skal styrkþegi endurgreiða ofgreiddan styrk.

Eins og þingheimur heyrir, virðulegi forseti, er verið að gera margvíslegar breytingar sem miða að því að bæta kvikmyndalögin.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.