148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

Kristnisjóður o.fl.

269. mál
[18:16]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins til að leggja orð í belg. Þessi umræða sem hér fer fram er skammt á veg komin. Þessi lög sem um ræðir eiga sér lengri aðdraganda en hér er nefnt. Lög frá 1907 sem komu frá Alþingi fjalla um þjóðkirkjuna en þar var kirkjunni gert að afhenda eignir sínar í umsjá ríkisins sem tók við fjárhaldi þessara eigna. Stofnaður var prestlaunasjóður sem átti að selja og leiga eignir og kosta af þeim rekstri embættislaun presta. Örlög þess sjóðs ætla ég ekki að rekja hér en vísa til endanlegs uppgjörs þeirrar meðferðar sem gerð var með samningi ríkis og kirkju frá 1997. Ríkið varðveitti þessar eignir, ráðstafaði, seldi og gaf eins og það ætti það sjálft, m.a. undir þéttbýli sem stendur að nokkrum hluta í dag og þar á meðal þéttbýlið í Reykjavík. Ákvæði laganna um Kristnisjóð hafa þá ekkert með stjórnarskrána að gera, heldur er samkomulagið eldra en svo.

Talið var að kirkjan hefði rétt til að byggja á eigin landi því að fjárhald veitir ekki eignarrétt og í það minnsta er siðferðileg skylda þess sem tekur við því að gæta hagsmuna þess sem með réttu átti það sem ráðstafað var.

Á bak við lögin um Kristnisjóð er því löng saga sem ber að líta á með sama hætti og samkomulag ríkis og kirkju frá 1997 sem lögfest er í þjóðkirkjulögum. Um er að ræða kaup kaups, afhendingu eigna gegn greiðslu og greiðslan er ákvæði laganna um Kristnisjóð, þar með talinn réttur þjóðkirkjusafnaða til þeirrar aðstöðu sem getið er um í 5. gr. laganna.