148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

287. mál
[18:45]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum og lögum um gjald af áfengi og tóbaki, lögum um landlækni og lýðheilsu og lögum um fjölmiðla, með síðari breytingum (smásala áfengis).

Það þarf svo sem ekki að fara í löngu máli yfir það að þetta er ekki í fyrsta sinn sem mál af þessu tagi kemur fyrir þingið. Nú á síðustu árum hafa verið lögð hér fram frumvörp; á 144., 145. og 146. löggjafarþingi. Þetta mál er þó nokkuð breytt frá þeim fyrri en tekur í öllum meginatriðum mið af vinnu allsherjar- og menntamálanefndar á síðasta kjörtímabili, eða á 146. löggjafarþingi réttara sagt.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum, lögum um gjald af áfengi sem fyrr segir með það að markmiði að einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis verði aflagt; að smásala með áfengi verði gefin frjáls að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og sérstök áhersla verði á eflingu lýðheilsusjóðs með auknum framlögum ásamt því að heimilt verði að auglýsa áfengi með nokkrum takmörkunum þó. Hér er því í grundvallaratriðum um annað mál að ræða en áður hefur verið rætt þar sem lagt hefur verið til að smásala á áfengi í matvöruverslunum verði heimiluð. Það er ekki um að ræða hér heldur einungis að heimilt verði að selja áfengi í sérverslunum með áfengi og matvöru samkvæmt nánari skilgreiningu þar á.

Frá því að sameinaðri verslun áfengis og tóbaks var komið á fót árið 1961 hefur allt almennt viðskiptaumhverfi gjörbreyst og samfélagið orðið í senn opnara og fjölbreyttara. Áfengismenning og áfengisneysla hefur líka gjörbreyst á sama tíma. Vín er orðið stór hluti gróskumikillar matarmenningar og innlend framleiðsla áfengis er að festa sig í sessi og er orðin iðnaður sem er nátengdur landkynningu og þjónustu við sívaxandi fjölda ferðamanna. Hér má einnig hafa í huga þá gríðarlegu breytingu sem orðið hefur á stuttum tíma þar sem fjöldi smáframleiðenda á áfengi, sér í lagi bjór og þá sérhæfðum bjór, getum við sagt, hefur sprottið upp en mikilvægt er að hafa í huga að staða þessara smáu framleiðenda er allt önnur en stórra framleiðenda varðandi það að koma vöru sinni á markað og sér í lagi í verslunum Vínbúðanna þar sem það er háð verulegum takmörkunum varðandi veltu eða sölu viðkomandi tegunda.

Þá hefur aðgengi að áfengi á undanförnum árum og áratugum stóraukist og útsölustöðum ríkisins með áfengi hefur fjölgað. Afgreiðslutími áfengisverslana ríkisins hefur verið rýmkaður, úrvalið hefur aukist og netverslun verið komið á fót. Vínveitingaleyfum um land allt hefur samhliða stórfjölgað á síðastliðnum 20 árum. Mér finnst mikilvægt að draga þennan punkt sérstaklega fram í ljósi þess að eitt helsta atriðið sem talað hefur verið um gegn breytingum á einokunarstöðu ríkisins í smásölu á áfengi er einmitt aðgengið og lýðheilsusjónarmiðið því tengt. Lítið hefur borið á þeirri umræðu í nákvæmlega þeirri breytingu sem hefur átt sér stað með stórauknum fjölda útsölustaða áfengis. Ef ég rifja upp mín fyrstu kynni af vínbúðum, þá var það afgreitt yfir borð á þremur stöðum, held ég, á höfuborgarsvæðinu. Í dag eru þetta nútímalegar verslanir sem eru um allt höfuðborgarsvæðið þar með talið í öllum meginverslunarkjörnum höfuðborgarsvæðisins.

Aðgengi hefur stóraukist á undanförnum árum og maður hefur ekki heyrt sömu andmælin þar varðandi lýðheilsusjónarmiðin eins og gjarnan spretta upp þegar talað er um að afnema ríkiseinokunina. Á sama tíma og þessi mikla breyting hefur átt sér stað hefur fyrirkomulag á einkaleyfi ríkisins með smásölu áfengis verið í grundvallaratriðum óbreytt í nær 95 ár eða síðan sterkt áfengi var aftur gert að löglegri neysluvöru árið 1922. Segja má að eina stóra og markverða breytingin sem orðið hafi á löggjöfinni sé þegar lögleiðing bjórs átti sér stað þann 1. mars 1989. Slíkt einokunarfyrirkomulag ríkisins með löglega neysluvöru hamlar eðlilegri og heilbrigðri samkeppni og skerðir atvinnufrelsi fólks. Löngu er tímabært að breyting verði á því fyrirkomulagi sem hér um ræðir og er tilgangur frumvarpsins að lögfesta nauðsynlegar breytingar í þá veru.

Meginefni frumvarpsins er sem fyrr segir afnám einkaleyfis smásölu áfengis. Með afnámi einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis og með því að einkaaðilum verði heimiluð slík sala að uppfylltum ákveðnum skilyrðum er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að almennt verði heimilt að selja áfengi í smásölu í sérverslunum með mat og drykkjarvörur en ekki stórmörkuðum og matvöruverslunum. Þá er í frumvarpinu kveðið á um að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um að í tilteknum sveitarfélögum verði heimilt að veita undanþágu frá meginreglunni um sérverslanir enda sé talið óhagkvæmt sökum fámennis að reka sérverslun einungis með áfengi en í þeim tilfellum skal áfengi þá vera í afmörkuðum rýmum eða í sérrými innan almennra verslana, þó þannig að það sé ekki sýnilegt viðskiptavinum almennu verslunarinnar. Er þetta gert til að koma til móts við þau sjónarmið að fyrirkomulag sérverslana gæti reynst óhagkvæmt á landsbyggðinni.

Ekki er lagt til í frumvarpi þessu að ÁTVR verði gert að hætta smásölu á áfengi. Afnám einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis kallar engu að síður á endurskoðun á þeirri starfsemi með hliðsjón af samkeppnisreglum enda mikilvægt að einkaaðilar standi ekki höllum fæti í samkeppni við ríkið í smásölu áfengis.

Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að áfengisauglýsingar verði heimilaðar með takmörkunum. Þær takmarkanir eru þá þær helstar að hvers kyns áfengisauglýsingum skuli fylgja aðvörunarorð um skaðsemi áfengis og aldrei megi beina áfengisauglýsingum að börnum og ungmennum. Rétt er að stíga varlega til jarðar vegna sérstöðu áfengis sem á ekki að kynna sem almenna sjálfsagða neysluvöru og því er lögð áhersla á að áfengisauglýsingarnar miði fyrst og fremst að því að kynna vöruna í tengslum við sölu hennar eða framleiðslu. Það er ágætt í þessu samhengi að hafa það í huga að hér á landi er áfengisauglýsingar víða að finna þrátt fyrir auglýsingabann. Tilgangur breytinganna er fyrst og fremst að stýra og hafa eftirlit með áfengisauglýsingum betur en nú er gert og jafna út ósanngjarnan aðstöðumun erlendra og innlendra aðila. Í gildandi rétti eru hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum bannaðar en það felur í sér mismunun á þann veg að erlendir framleiðendur hafa greiðan aðgang að auglýsingum sem birtast hér á landi hvort sem um er að ræða auglýsingar á erlendum kappleikjum, á internetinu eða í öðrum hljóð-, prent-, eða myndmiðlum svo að einhver dæmi séu tekin.

Með aukinni netvæðingu hefur aðgengi innlendra neytenda að auglýsingum er varða áfengi aukist til muna og þykir því ljóst að núverandi bann hefur einna helst áhrif á innlenda framleiðslu og innlenda vöruþróun. Einnig hefur tíðkast um langa hríð að stærstu áfengisframleiðendurnir sem framleiða einnig léttöl hafi auglýst þá vöru með skírskotun til sambærilegrar áfengrar vöru og hafa þannig farið fram hjá banninu og njóta þannig samkeppnislegs forskots í kynningu vegna framleiðslugetu sinnar. Þess ber einnig að geta að verði smásalan gefin frjáls án þess að auglýsingabann verði afnumið mun það skapa ójafnvægi milli smásölu og heildsölustigs. Smásalar yrðu því næsta einráðir um vöruframboð.

Þær breytingar sem lagðar eru til á lagaumhverfi viðskiptaboða með áfengi eru í samræmi við þær ábendingar sem bárust um eldra frumvarp og lutu að samræmingu við lágmarksreglur um innihald og framsetningu áfengisauglýsinga sem fram koma í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins, 2007/65 frá 11. september 2007. Þá hefur við gerð frumvarpsins verið tekið mið af þeirri vinnu sem birtist í skýrslu starfshóps á vegum fjármálaráðherra um heildarendurskoðun áfengislöggjafarinnar frá því í janúar 2010. Þar var lagt til að heimila skyldi auglýsingar á áfengi með takmörkunum og raunar má líka finna sömu tillögur í nýlegum tillögum varðandi starfsumhverfi fjölmiðla hér á landi.

Samhliða þessu er lagt til að framlög til forvarna og eflingar lýðheilsu verði stóraukin þannig að sérstakt gjald, sem í dag er 1% af áfengisgjaldi og rennur í lýðheilsusjóð, verði hækkað í 5%. Þá er einnig lagt til að nýju ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lög um landlækni og lýðheilsu þar sem lýðheilsusjóði verði gert að leggja sérstaka áherslu á forvarnaverkefni á sviði áfengisvarna á árunum 2018–2022. Breytingin á verslun með áfengi og tóbak, sem hér er lögð til, felur aðeins í sér að aðrir en hið opinbera geti annast smásölu áfengis sem og rýmkun á heimildum til auglýsinga. Þannig felur frumvarpið ekki í sér tillögur um breytingu á áfengisstefnu, áherslum í tóbaksvörnum eða tekjuöflunarkerfi ríkisins á þessu sviði.

Ég held að það skipti kannski höfuðmáli, þegar við skoðum kjarna þessa máls, að flestir eru sammála um mikilvægi fræðslu og forvarna þegar kemur að notkun áfengis. Hér er einmitt lagt til að framlög til lýðheilsusjóðs verði stóraukin og það er enginn að draga úr þeim mikilsverða árangri sem við höfum náð í því skyni að draga t.d. úr unglingadrykkju hér á landi. En það er vert að hafa það í huga að við höfum náð þeim árangri fyrst og fremst á grundvelli fræðslu og forvarna af því að aðgengi að áfengi hefur stóraukist allan þann tíma sem þessi árangur hefur verið að nást. Það er gerbreytt aðgengi að áfengi í dag samanborið við það sem var á þeim tíma sem unglingadrykkja var hvað verst hér fyrir kannski um þremur áratugum eða svo.

Í raun og veru er fyrst og fremst verið að spyrja, með þessu frumvarpi, þessarar spurningar: Er kjarni áfengisvarnarstefnu okkar sá að ríkið eitt fari með smásölu áfengis því við heimilum einkaaðilum að selja áfengi á margs kyns hátt, bara ekki í verslunum? Síðast þegar ég kannaði voru t.d. vínveitingaleyfi útgefin á Íslandi um 1.250, allt saman meira eða minna vínveitingaleyfi út gefin til einkaaðila. Þar treystum við einkaaðilum til að fara með sölu á áfengi en einhverra hluta vegna ekki þegar kemur að smásölustiginu. Ég er ekki sammála þeirri nálgun að árangri í forvörnum og fræðslu um áfengisneyslu, sérstaklega þó hvað varðar ungt fólk, verði einungis náð með ríkiseinokun á smásölustigi. Ég tel þvert á móti að það skipti engu máli í þeim samanburði og að fullkomlega eðlilegt sé að horfa til eðlilegs samkeppnisumhverfis á þessu sviði sem á öðrum með því stíga þá loks þetta skref og afnema einokun ríkisins á þessari tilteknu vöru.