148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

framboð Íslands til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna.

[15:28]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Það er svo að barnaverndarnefndir kvörtuðu til velferðarráðuneytis vegna samskipta við Barnaverndarstofu. Ráðuneytið fór yfir það mál með tilteknum hætti og mér skilst að þau tilmæli sem gefin voru út í kjölfarið séu hluti af þeim trúnaðargögnum sem hér liggja frammi fyrir nefndarmenn velferðarnefndar en ekki aðra þingmenn. Það liggur líka fyrir, og fyrir því var gerð grein í þinginu af hálfu hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra, að þessi samskipti hefðu verið á gráu svæði. Það kom fram bæði í þingsal og væntanlega fyrir velferðarnefnd á þeim tíma.

Það upplýsti hæstv. ráðherra líka ríkisstjórnina um þegar hann gerði tillögu um þetta framboð til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Nú liggur fyrir að m.a. á vettvangi velferðarnefndar Alþingis hafa komið fram spurningar um málavöxtu í þessu máli og því liggur fyrir að ég tel það skyldu mína sem forsætisráðherra að verða við ósk hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra um að láta fara fram óháða úttekt á öllum málavöxtum þessa máls frá því að þessar kvartanir barnaverndarnefnda bárust velferðarráðuneyti og hvernig málsmeðferð barnaverndarnefnda, Barnaverndarstofu, velferðarráðuneytis var háttað. Þessi úttekt verður unnin eins og kom raunar fram í fyrra svari við fyrirspurn hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur og eins og sömuleiðis kom þar fram (Gripið fram í.) getur niðurstaða þeirrar úttektar haft áhrif á framboðið sem hv. þingmaður nefndi hér og spurði sérstaklega um.

Um þetta er algjör einhugur í ríkisstjórninni, af því að hér er spurt af hv. þingflokksformanni Miðflokksins. Ég tel mjög mikilvægt, eins og ég sagði áðan, að í þessum viðkvæma málaflokki sé vandað til verka. Þar með er ekki verið að taka fram fyrir hendurnar á Alþingi (Forseti hringir.) en það er hins vegar mjög mikilvægt að framkvæmdarvaldið láti til sín taka í þessu máli og láti þessa úttekt fara fram. Við förum yfir þær niðurstöður þegar þær liggja fyrir.