148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

hvítbók um fjármálakerfið.

[16:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegi forseti. Lítum á hvernig þessi vinna kom til. Ástæðan er sú að við sitjum uppi með ríkisstjórn sem hefur ekki sameiginlega sýn á nokkurn skapaðan hlut, kannski allra síst á fjármálakerfið. Enginn þeirra flokka sem mynda þessa ríkisstjórn gat sett fram sýn eða stefnu í málefnum fjármálakerfisins fyrir síðustu kosningar. Þá er brugðið á það ráð við stjórnarmyndunina að í stað þess að reyna að koma sér saman um sameiginlega stefnu, sem þau gerðu þá væntanlega ráð fyrir að væri ómögulegt, að fá ágætt fólk úti í bæ til að skrifa fyrir sig talpunkta um fjármálakerfið.

Þessir talpunktar eiga að mér skilst að berast í lok september. Þá ætlar ríkisstjórnin að byrja að ræða málið út frá þeim en hefur ekki hugmynd um hvað eigi að gera í málefnum fjármálakerfisins fram að því. Þetta er auðvitað algerlega ótækt ástand, virðulegi forseti, sérstaklega í ljósi þess að málefni fjármálakerfisins eru búin að vera stærsta viðfangsefni stjórnmálanna á Íslandi í að minnsta kosti áratug og raunar töluvert lengur. Maður hefði haldið að á þeim tíma og í allri þeirri umræðu og átökum um framtíð fjármálakerfisins gætu stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn hafa myndað sér einhverja sýn á það hvernig þeir vildu sjá hlutina þróast. En það er ekki til hjá þessari ríkisstjórn slík sýn.

Hv. þm. Óli Björn Kárason kom reyndar hér og sagðist eiga sér draum um fjármálakerfið og lýsti svo ákveðinni stefnu, ákveðinni sýn sinni á þróunina. Hann má eiga það að þar er ákveðin sýn og stefna. En hvernig fer sú sýn saman við sýn og stefnu hæstv. forsætisráðherra? Ég efast um að hægt sé að ná mikilli samlegð þar í stefnumótun.

Staðan er þessi: Stærsta viðfangsefni stjórnmálanna er í lausu lofti. Á meðan taka aðrir völdin, á meðan eru það erlendir vogunarsjóðir sem leggja línurnar um þróun íslenska fjármálakerfisins.