148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

hvítbók um fjármálakerfið.

[16:32]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Fjármálakerfi hvers lands er ein grundvallarforsenda þess að samfélagið geti virkað. Það er ómissandi hluti af hjarta- og æðakerfi umsvifa í samfélaginu. Til þess þarf að ríkja traust og það þarf að vera traust. Það þarf að vera í stakk búið til að sinna þörfum innan lands en ekki síður að geta annast samskipti á alþjóðamarkaði við önnur fjármálakerfi. Til þess þarf það að lúta öllum sömu meginreglum og hið evrópska fjármálakerfi. Hér þarf ekki íslenskar sérlausnir.

Umræðu um fjármálakerfi sem er heilbrigt og samkeppnishæft er illa hægt að slíta frá umræðu um gjaldmiðilsmál. Hætt er við að við náum ekki viðunandi árangri varðandi fjármálakerfið og efnahagsmál á Íslandi fyrr en alvörugjaldmiðill verður tekinn upp í stað krónunnar.

Nýsköpunarfyrirtæki og önnur lítil og meðalstór fyrirtæki eru háð íslenskum fjármálafyrirtækjum. Það sama gildir auðvitað um þorra almennings í landinu. Þessi fyrirtæki hafa ekki sömu tækifæri til þess að fjármagna sig með leiðum sem eru stærri fyrirtækjum færar. Þau verða að búa við háan vaxtakostnað og takmarkaðri þjónustu. Uppbygging fjármálakerfisins verður að taka mið af því og hafa að markmiði að nýsköpunarfyrirtækin okkar geti þrifist hér á landi en þurfi ekki að flýja land til þess að geta vaxið með eðlilegum hætti eða gefast upp ella.

Sveiflur í gjaldmiðli og háir vextir eru sá þrándur í götu sem við verðum að ryðja úr vegi. Það á að vera höfuðmarkmið endurskoðunar fjármálakerfisins og peningastefnunnar.