148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

hvítbók um fjármálakerfið.

[16:52]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka umræðu hv. þingmanna sem hefur algerlega staðið undir mínum væntingum enda fór hún víða. Ég verð að segja hér í lokin af því að hv. þm. Þorsteinn Víglundsson, málshefjandi, nefndi að við sölu á fjármálafyrirtækjum þurfi að tryggja dreift eignarhald: Þetta er einmitt eitt af því sem mér finnst mjög mikilvægt að verði skoðað sérstaklega í vinnunni. Við höfum mjög mörg hver í þessum sal talað um þetta. Samkvæmt niðurstöðu sem við fengum í vinnu hv. efnahags- og viðskiptanefndar á síðasta þingi eru litlar leiðir til þess fyrir íslenska ríkið að tryggja dreift eignarhald út frá evrópska regluverkinu. Við þurfum þá að átta okkur á því hvernig við ætlum að gera það ef við viljum fá dreift eignarhald og skoða það regluverk sem við höfum þegar innleitt.

Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gerði að umtalsefni forkaupsrétt í Arion banka og ég hlýt að koma að því máli þar sem hann heldur því fram að hér hafi stjórnvöld tekið einhverja nýja ákvörðun um að falla frá forkaupsrétti. Ég minni hv. þingmann á það stöðugleikasamkomulag sem hann stóð sjálfur að á sínum tíma þar sem gerður var sérstakur afkomuskiptasamningur um að Kaupþing hefði rétt á að leita til óháðs fjárfestingarbanka um ráðgjöf um aðlögun forkaupsréttarins yrði bankinn skráður á markað. Þessi samningur sem hv. þingmaður tók þátt í að gera sem hæstv. forsætisráðherra á sínum tíma er enn í fullu gildi og mér finnst rétt að minna hv. þingmann á hans glæstu forsögu í þessum málum.

Ég tek síðan eftir því að margir hv. þingmenn eru í raun að ræða peningastefnu en ekki skipulag fjármálamarkaðar. Vissulega eru þetta tengd atriði. Ég vísaði til þess áðan að nefnd um endurskoðun peningastefnu myndi skila af sér í maí eða júní og við fengjum þá tækifæri til að ræða niðurstöður hennar. Þegar við ræðum að hér þurfi alvörugjaldmiðil, eins og við séum ekki með alvörugjaldmiðil, hlýt ég að andmæla því sjónarmiði. Hins vegar þekkjum við sem erum í þessum sal að unnin hefur verið greining á þeim valkostum sem standa til boða. Niðurstaða Seðlabankans 2012 var að annars vegar væri það íslenska krónan með tilteknum þjóðhagsvarúðartækjum og hins vegar evran sem fæli (Forseti hringir.) í sér inngöngu í Evrópusambandið og væri því miklu stærra pólitískt spursmál. Síðan var þeirri nefnd sem nú er að störfum falið sérstaklega að skoða leið sem einnig er reifuð í skýrslu Seðlabankans, myntráð, en ég held að við ættum að ræða það að engin þessara leiða mun reynast nein töfralausn. Þó að talað sé um að sumir gjaldmiðlar séu alvöru og aðrir ekki held ég að við ættum að vera meðvituð um að það eru kostir og gallar við alla gjaldmiðla. Þeir endurspegla það hagkerfi sem þeir þjóna sem það tæki sem þeir eru. Ég myndi hins vegar fagna því ef við ættum alvöruumræðu um þessi mál á þingi og kannski (Forseti hringir.) sérstaka umræðu um peningastefnuna sem slíka en ekki skipulag fjármálakerfisins. Ég held að við eigum eftir að ræða það þegar hvítbókarnefndin skilar sinni vinnu.

Afsakið, frú forseti, að ég skyldi fara fram yfir tímann.