148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Mig langar að ræða aðeins um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í ljósi þess að við höfum fullgilt þann mikilvæga samning og enn liggur fyrir þinginu að taka fyrri umr. um þingsályktunartillögu sem ég hef áður flutt um heildarendurskoðun lögræðislaga. Við höfum fullgilt þennan samning en lögræðislög okkar eins og þau standa í dag uppfylla ekki þær kröfur sem samningurinn setur okkur um að virða sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt fólks með fötlun.

Í því samhengi er ágætt að fara yfir hvar hallar á fólk sem er með einhvers konar geðsjúkdóm eða geðfötlun og hvers konar ólög við erum í raun og veru enn þá með í okkar annars almennt lýðræðissinnaða landi gagnvart þessum þjóðfélagshópi. Lögræðislögin tryggja ekki málsmeðferðarréttindi þeirra sem geta orðið fyrir því að vera sviptir sjálfræði eða vistaðir á stofnun eins og stundum er talað um. Málsmeðferðarreglurnar þar eru óskýrar. Þær eru lélegar og mismuna fólki á grundvelli fötlunar. Dæmi um þetta er að hægt er að svipta fólk frelsi sínu fyrir það eitt að þjást af alvarlegum geðsjúkdómi, líkur séu á að svo sé eða ástandi viðkomandi megi jafna við að vera með alvarlegan geðsjúkdóm.

Ef við tökum bara þetta dæmi er það skýr lagaleg mismunun gagnvart fólki með geðsjúkdóma. Það er mjög skýrt í öllum álitum sem hafa komið frá nefnd um réttindi fatlaðs fólks og það er líka mjög skýrt í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að við skulum afnema alla mismunun í lögum gagnvart fólki með fötlun.

Ég vil ítreka mikilvægi þess að við tökum höndum saman og breytum þessum lögum hið fyrsta. Ég vek athygli þingmanna á þingsályktunartillögunni sem liggur fyrir og óska eftir því við hæstv. forseta að hann flýti meðferð þess máls. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)