148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Frumvarpi um upplýsingaskyldu ráðherra var dreift hér í gær. Efni frumvarpsins er um ábyrgð ráðherra gagnvart Alþingi ef hann greinir rangt frá, gefur þingmönnum og þinginu villandi upplýsingar, eða leynir upplýsingum sem mikilvægar eru fyrir meðferð mála á Alþingi. Sambærilegt frumvarp hefur verið lagt fram undanfarin 25 ár af og til hér á Alþingi en aldrei gengið í gegn. Að gefnu tilefni er málið nú lagt fram að nýju sem liður í því að styrkja þingræðið og eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Það er grundvallarforsenda lýðræðis að þjóðkjörnir fulltrúar hafi réttar upplýsingar til að byggja ákvarðanatöku sína á. Rangar upplýsingar geta hæglega leitt til þess að þingið komist að niðurstöðu sem hefur slæmar afleiðingar og skortur á upplýsingagjöf getur augljóslega leitt til trúnaðarbrests milli þings og ráðherra.

Ein af ábendingum rannsóknarnefndar Alþingis var að Alþingi hefði ekki náð að rækja eftirlitshlutverk sitt með handhöfum framkvæmdarvaldsins með öflugum hætti fyrir bankahrun. Undir það tók þingmannanefnd sem fjallaði um skýrsluna. Lögð var áhersla á að auka sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu og m.a. lagt til að breytingar yrðu gerðar á lögum um ráðherraábyrgð.

Með frumvarpinu sem dreift var í gær, um upplýsingaskyldu ráðherra, er lagt til að ábyrgð ráðherra geti skapast annars vegar ef hann veitir Alþingi rangar og villandi upplýsingar og hins vegar ef hann leynir upplýsingum sem hafa verulega þýðingu fyrir meðferð máls á Alþingi. Grundvallarforsenda upplýstrar umræðu er réttar og greinargóðar upplýsingar. Til að undirstrika mikilvægi upplýsingaskyldu ráðherra til Alþingis er með frumvarpinu lagt til að brot gegn henni varði viðurlögum samkvæmt almennum skilyrðum laga um ráðherraábyrgð.

Ég vil fyrir hönd flutningsmanna, (Forseti hringir.) sem eru þingmenn allra stjórnarandstöðuflokkanna, hvetja forseta til að setja málið sem allra fyrst á dagskrá.