148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kjör ljósmæðra.

[11:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Fyrir rúmum tveimur árum fóru ljósmæður í verkfall, eins og komið hefur fram hér, vegna lélegra kjara. Sett voru lög á verkfallið og endaði það í gerðardómi. Sögunni lauk ekki þar því það sorglega er að ljósmæður hafa ekki enn þann dag í dag fengið greidd laun frá ríkinu fyrir unna vinnu í umræddu verkfalli. Það er með ólíkindum, myndum við sætta okkur við það? Upphæðin getur verið allt að nokkur hundruð þúsund krónur á ljósmóður. Ljósmæður fóru með málið fyrir héraðsdóm og unnu það en ríkið ákvað að áfrýja þeirri niðurstöðu og þar við situr.

Það er því ekki að undra að stéttin sé örg og farið sé að reyna á þolmörk ljósmæðra. Á Landspítala er ástandið orðið eldfimt, bæði hvað varðar öryggi sjúklinga og langlundargeð ljósmæðra. Stór hluti þeirra hefur sagt upp störfum og mun það skilja eftir sig stórt skarð í þeirra röðum. Ljósmæður landsins eru tæplega 280 en meira en helmingur þeirra er kominn yfir fimmtugt og því ljóst að nýliðunar er þörf.

Það er ekki fýsilegur kostur fyrir hjúkrunarfræðinga að hefja nám í greininni því að þær lækka margar hverjar í launum að námi loknu. Hvar eru hin fögru fyrirheit ríkisstjórnarinnar um jafnlaunastefnu? Innan BHM eru ljósmæður rúmlega 30 þús. kr. undir meðaltalsgrunnlaunum en með lengsta nám til starfsréttinda. Það félag sem stendur þeim næst í þeim efnum er félag dýralækna, það munar heilum 70 þús. kr. á grunnlaunum þessara stétta og hallar þar á ljósmæður.

Herra forseti. Ég legg til að ríkisstjórnin sjái sóma sinn í því að slíðra sverðin, felli niður mál ríkisins á hendur ljósmæðrum og greiði þeim laun fyrir unna vinnu í verkfallinu 2015. Síðast en ekki síst, ganga að samningaborðinu, leiðrétta kjör ljósmæðra og sýna í verki þá virðingu sem þeim ber, þessari elstu kvennastétt landsins.