148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kjör ljósmæðra.

[11:36]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir að vekja athygli á þessu máli og þá kannski fyrst og fremst að gefa okkur tækifæri til að ræða þá mikilvægu stétt sem ljósmæður eru. Ég hygg að kjaradeilur verði seint leystar hér í þingsal en í ljósi þess að hæstv. ráðherra talaði einmitt um að við þyrftum að hugsa út fyrir boxið þá held ég að það sé ekki síst tækifærið okkar hér. Þá langar mig að velta fyrir mér ábyrgðarsviði ljósmæðra sem er mikið. Hvernig stendur á því að þegar ljósmóðir sem hefur tvær háskólagráður, sex ára háskólanám á bakinu, kannski áratugastarfsreynslu, og er að sinna ófrískri konu sem hún vill sjúkraskrifa, þá þarf þessi ágæta ljósmóðir að fara með vottorðið yfir í næsta herbergi og talar við unglækni til að láta hann skrifa upp á vottorðið? Þurfi að skrifa lyfseðil fyrir minni háttar lyfjum gerir hún það sama.

Hverju sætir þetta? Er þetta kannski dæmi um eitthvað þar sem við ættum að hugsa út fyrir boxið? Ljósmæður eiga að sjálfsögðu að hafa laun í samræmi við menntun sína og ábyrgðarsvið. Er þetta kannski eitt af því sem við ættum að horfa á? Eða að tryggja valfrelsið. Nú erum við nýbúin að fara yfir heimaþjónustuna sem er gríðarlega mikilvægur þáttur í þjónustu ljósmæðra og þjónustu við ófrískar konur og fæðandi konur. Þar eru svo mikil tækifæri á því að auka nýsköpun, þar er hægt að nota tæknina. Ég hef sjálf reynslu af reynslu ljósmæðra vegna þess að ég á móður sem er ljósmóðir og það að geta haft samband við einhvern í gegnum síma eða samskiptamiðla er bæði hagkvæm og góð lausn. Ég held að við ættum að hugsa á þessum nótum. Ég held að það séu töluvert mikil tækifæri til að hugsa út fyrir boxið ef við látum þessa frjóu og kláru heilbrigðisstétt móta þjónustuna með okkur. Að sjálfsögðu á hún að fá greidd laun í samræmi við það. (Forseti hringir.)

Hv. þingmaður, málshefjandi, spurði hér áðan: Erum við enn að horfa upp á kerfislæga mismunun þegar kemur að launasetningu milli kynjanna? Ég held því miður að svarið við þeirri spurningu sé já, þrátt fyrir að við, virðulegur forseti, séum búin að gera allt (Forseti hringir.) sem í okkar valdi stendur, að við teljum, hér í þessum sal. Þá velti ég fyrir mér hvort vera kunni að … (Forseti hringir.)kjarasamningar ýti undir þessa kerfislegu mismunun. Hversu margir lögfræðingar, verkfræðingar (Forseti hringir.)eða karlmannsstéttir fá raunverulega greitt eftir kjarasamningum? (Forseti hringir.) Afsakið, herra forseti.