148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[11:59]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir í síðari umr. nefndarálit meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar með breytingartillögu um þá tillögu til þingsályktunar sem fyrir lá um upptöku samræmdrar vísitölu neysluverðs. Ég ætla að rifja hér ögn upp helstu atriði málsins frá fyrri umr. þess og fyrirætlan flutningsmanna málsins. Mun ég fara yfir þær breytingar sem lagðar eru til á málinu í ljósi umsagna um málið og umfjöllun.

Ég vil segja þegar í upphafi ræðu að ég tel þær breytingar sem hér eru lagðar til vera til mikilla bóta fyrir málið. Umfjöllun hv. efnahags- og viðskiptanefndar hefur leitt málið í skynsamlegri farveg að mínu mati, svo það komi nú alveg skýrt fram.

Upphafleg fyrirsögn málsins bendir til að það hafi fyrst og fremst snúist um að taka upp sem grundvöll útreikninga verðtryggingar verðtryggðra lána svokallaða samræmda vísitölu neysluverðs í stað neysluverðsvísitölu eins og nú er gert. Voru þar lögð til grundvallar samræmisrök þannig að hér væri miðað við þá vísitölu sem sambærileg er við þá vísitölu sem miðað er við annars staðar í Evrópu sem og að til staðar væri eðlilegri nálgun húsnæðiskostnaðar, þ.e. í útreikningi þeirrar vísitölu.

Upphaflega þingsályktunartillagan var orðuð svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp óháðra sérfræðinga sem greini kosti og galla þess að gera breytingar á útreikningi verðbólgu og verðtryggingar þannig að framvegis verði notuð samræmd vísitala neysluverðs í stað vísitölu neysluverðs.“

Það var upphaflega fyrirætlunin. Að við greiningarvinnuna yrði sérstaklega horft til þess hvernig verðbólga væri mæld í helstu viðskiptalöndum Íslands og metið hvaða áhrif breytingin hefði á launakjör, lánakjör, stöðu verðtryggðra lána og vexti. Ætlunin var að skipta út vísitölu neysluverðs og taka upp samræmda vísitölu og meta kosti og galla þess áður en það yrði klárað.

Tillaga til þingsályktunar um upptöku samræmdrar vísitölu, eins og við höfum hér til umfjöllunar og hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur fjallað um, hefur nú verið færð til mun betra horfs að mínu viti, bæði er varðar tillögugrein og fyrirsögn, sem leiðir af breytingum á tillögugreininni. Rökin fyrir því í upphaflegu tillögunni voru að gera hér breytingu á og miða útreikninga verðtryggðra lánasamninga og samkvæmt lögum þar um, lögum um vexti og verðtryggingu og lögum um verðtryggingu.

Til að setja þessa hluti í samhengi ætla ég að líta til þeirrar umsagnar sem Alþýðusamband Íslands sendi við málið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Verðlagsþróun undanfarinna ára hefur leitt af sér aukna umræðu um mælingu verðbólgunnar. Líkt og á árunum 2003–2007 hefur verðbólga frá árinu 2014 verið drifin áfram af þróun á húsnæðismarkaði en sú þróun hefur töluverð áhrif á þróun verðtryggðra lána, og þá sérstaklega 40 ára jafngreiðslulána. Hækkun húsnæðisverðs kemur fram í verðbólgu í gegnum mat Hagstofunnar á reiknaðri húsaleigu sem mælir kostnað við eigið húsnæði en þann lið undanskilur samræmda vísitalan. Líkt og bent er á í umsögn Hagstofunnar er þó stefnt að upptöku húsnæðisliðar í samræmdu vísitölunni, þannig að munur á henni og vísitölu neysluverðs verður hverfandi.“

Þetta mál var til sérstakrar umfjöllunar á 42. þingi ASÍ þar sem þingið ályktaði að vísitala neysluverðs til verðtryggingar samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu yrði hér eftir reiknuð án húsnæðisliðar.

Þannig ítrekar ASÍ að eðlilegt sé að lántaki hafi val um þá vísitölu sem liggi til grundvallar verðtryggingu lánasamninga og bendir á að þær breytingar sem fyrirætlaðar eru og koma fram í umsögn Hagstofunnar gefi tilefni til að gera þær breytingar á málinu sem við horfum á hér, en styðja málið og segja jafnframt að því fylgi kostir en einnig gallar. Alþýðusambandið tekur þannig undir að skoða þurfi nákvæmlega kosti og galla þess að lántaki hafi val um hvaða vísitala liggi til grundvallar verðtryggðum skuldbindingum, hvort sem það er vísitala neysluverðs, samræmd neysluvísitala eða vísitala neysluverðs án húsnæðis.

ASÍ styður þann hluta tillögunnar, eins og fram kemur hér, að meta þurfi þessa kosti og galla frekar, en jafnframt að einskorða sig ekki við samræmdu neysluvísitöluna þar sem vísað er í umsögn Hagstofunnar.

Vík ég nú að umsögn Hagstofunnar þar sem segir að stefnt sé að upptöku húsnæðisliðar í samræmdu vísitölunni og fellir þar með samræmisrökin. Húsnæðisliðurinn verður tekinn upp í þá vísitölu sem Hagstofan er skuldbundin til að reikna fyrir Ísland á grundvelli EES-samningsins og fylgir við það þeim lögum og reglum sem um vísitöluna gilda og tilskilda Evrópureglugerð. En í umsögn Hagstofunnar kemur einnig fram, með leyfi forseta:

„Hagstofa Íslands gerir ekki athugasemd við að starfshópur verði skipaður um málefni verðtryggingar, sem fari yfir kosti og galla ólíkra mælikvarða sem nota mætti til verðtryggingar, eða að slíkur hópur leggi til nýjan grundvöll verðtryggingar frá því sem nú gildir. Hagstofa Íslands er tilbúin að upplýsa slíkan starfshóp um samsetningu vísitalna sem til umfjöllunar myndu koma, séu þær vísitölur á forræði Hagstofu Íslands.“

Að þessu leyti styður Hagstofan þessa faglegu skoðun.

Seðlabanki Íslands bendir jafnframt á að samræmda vísitalan hafi verið reiknuð frá 1995 samkvæmt staðlaðri aðferð fyrir öll lönd Evrópska efnahagssvæðisins. Seðlabankinn segir jafnframt, með leyfi forseta:

„Hið formlega verðbólgumarkmið Seðlabanka íslands er skilgreint út frá vísitölu neysluverðs, þótt peningastefnunefnd bankans horfi auðvitað einnig til ýmissa annarra mælikvarða á verðbólgu við mótun peningastefnunnar, þar á meðal hinnar samræmdu vísitölu neysluverðs.“

Ég tel mikilvægt að þetta komi fram þar sem lagt er til að tillagan fái faglegt mat áður en farið er af stað í breytingar á vísitölu, eða hvort heldur sem er að sett verði fram að neytandinn hafi þetta val. Því að þetta hefur auðvitað áhrif á marga þætti sem snúa að peningamálum og peningastefnu, vaxtaákvörðun peningastefnunefndar og svo framvegis.

Því er mikilvægt að farið sé yfir þetta eins og hér er boðað með þessari tillögu.

Seðlabankinn bendir jafnframt á að í vísitölu neysluverðs sé innbyggð sveiflujöfnun sem ekki er til staðar í samræmdu vísitölunni, og bendir á rammagrein II í Peningamálum frá 2016 þar sem breyting á viðmiðum lánasamninga gæti leitt til meiri sveiflna í afborgunum verðtryggðra lána. Vil ég segja til staðfestingar á því að það er mikilvægt að við skoðum alla anga þessa máls gagnvart peningamálum og peningastefnu. Það rennir jafnframt stoðum undir þær breytingar sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd leggur hér til.

Ég ætla að lokum, til staðfestingar á þeim jákvæðu breytingum sem málið hefur fengið, að vitna til umsagnar Hagsmunasamtaka heimilanna sem eru hlynnt því að sú tillaga sem hér um ræðir verði samþykkt. Svo vitnað sé orðrétt í umsögn þeirra, með leyfi forseta:

„Að þessu sögðu eru Hagsmunasamtök heimilanna hlynnt því að sú tillaga sem hér um ræðir verði samþykkt og fjármála- og efnahagsráðherra falið að láta greina kosti og galla þess að fella húsnæðislið brott úr vísitölu neysluverðs til verðtryggingar eða taka upp samræmda vísitölu neysluverðs í hennar stað. Slík greining gæti svo nýst sem grundvöllur áframhaldandi umræðu um málefnið og leiðarvísir í nauðsynlegum aðgerðum til að útrýma verðtryggingu neytendalána.“

Þar kemur sjónarmið þessara ágætu samtaka, Hagsmunasamtaka heimilanna, glöggt fram og komið hefur fram í umsögnum þeirra í gegnum hin síðari misseri að verðtrygging ætti ekki að vera á lánasamningum heldur einvörðungu vextir, enda er verðtrygging ekkert annað en vextir. Hagsmunasamtökin hafa fært rök fyrir því.

En það er auðvitað bara angi af þessu máli.

Allt að einu, það sem kemur skýrt fram í öllum umsögnum er skýr stuðningur við tillöguna um að vega og meta kosti og galla þess að skipta hér um vísitölu eða gefa val um vísitölu, gefa neytendum val, og lögð áhersla á að binda sig ekki við eina vísitölu eins og upphaflega var lagt af stað með, þ.e. samræmda vísitölu neysluverðs. Til þess að leysa þá klemmu sem birtist í þessum umsögnum hefur meiri hlutu hv. efnahags- og viðskiptanefndar lagt til breytingar sem grípa meginefni þeirra umsagna sem ég fór hér yfir. Ég met það svo að það sé til verulegra bóta, og ég styð þær breytingar sem koma fram á málinu og hv. þingmaður og framsögumaður málsins Ólafur Þór Gunnarsson fór rækilega yfir í framsögu sinni. Það gildir bæði um fyrirsögn tillögunnar og þá tillögugrein sem hér er lögð til. Fyrirsögnin orðast þá svo, og ég styð, samkvæmt nefndarálitinu: Tillaga til þingsályktunar um mat á forsendum við útreikning verðtryggingar. Og er þá meira í samræmi við tillögugreinina sjálfa sem á að orðast svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sérfræðinga sem meta kosti og galla þess að miða verðtryggingu fjárskuldbindinga við vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar eða að lántaki hafi val um hvaða vísitala liggi til grundvallar verðtryggingu slíkrar skuldbindingar.“

Það er auðvitað kjarni máls og ég tel að það grípi mjög vel þær skoðanir sem fram koma í umsögnum hagaðila og umfjöllun nefndarinnar. Tilgangurinn sést mjög vel með orðalagi tillögugreinarinnar svo breyttri.

Það er jafnframt viðbót við þetta faglega mat, sem hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson fór reyndar ágætlega yfir, til viðbótar við að meta áhrif á launakjör, lánakjör, stöðu verðtryggðra lána og vexti, að hópurinn meti jafnframt áhrif sem tillögur verkefnastjórnar um endurmat peningastefnu kunna að hafa á vísitölu, verðtryggingu og vaxtastefnu Seðlabankans. Það er afar mikilvægt og málinu til mikilla bóta.

Ég met það jafnframt svo að þetta sé enn frekar í samræmi við stjórnmál hæstv. ríkisstjórnar og fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni sjálfri, með leyfi forseta:

„Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir á blaðsíðu 10: „Fasteignaverð er liður í neysluvísitölu hér á landi og mikil hækkun þess á undanförnum árum hefur af þeim sökum leitt til þess að höfuðstóll verðtryggðra lána hefur hækkað meira en ella. Ríkisstjórnin mun hefja skoðun á því hvernig megi fjarlægja fasteignaverð úr mælingu neysluvísitölunnar.““

Ég vil segja að lokum að sú tillaga sem hér er lögð fram er því í fullu samræmi við þann vilja ríkisstjórnarinnar og fer vel á því að þingið samþykki þessa tillögu og staðfesti vilja sinn þar um og þrýsti á að slík vinna og mat eins og tillagan hljóðar svo breytt boðar.

Ég vil að lokum þakka hv. efnahags- og viðskiptanefnd mjög vandaða vinnu og þær breytingar sem gerðar eru á málinu. Mér finnst þær vera til verulegra bóta og umfjöllunin er vönduð á allan hátt.