148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[12:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka sérstaklega fram að hér tala ég ekki endilega fyrir alla Pírata. Ég gæti reyndar sagt að það sé algerlega á hreinu að ég tala ekki fyrir alla Pírata í þessu máli. Það eru skiptar skoðanir um verðtryggingu meðal Pírata bæði sem flokks og þingflokks. Mér finnst rétt að hafa það á hreinu fyrir fram. Verðtryggingin er undirstaða þessa máls og grunnforsenda þess að það er lagt hér fram.

Ég er á nefndaráliti nefndarinnar sem meðlimur í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, eins og fram hefur komið, en með fyrirvara sem mig langaði til að gera grein fyrir í pontu. Fyrst langar mig að nefna fyrir fólk sem hefur áhuga á að taka þátt í starfi Pírata þar sem mál eins og þessi eru rædd, að hjá Pírötum er skugganefnd efnahags og viðskipta sem ég hóa saman í sjálfur enn sem komið er. Þar eigum við spjall um efnahagsmál og allar skoðanir eru velkomnar. Við leggjum sérstaka áherslu á að fólk eigi að geta spjallað um hugðarefni sín án þess að hafa sérstaka sérþekkingu á efninu. Það er liður í starfi okkar til að reyna að tengja þingflokkinn við grasrótarstarfið. Fólk getur sent mér skilaboð ef það hefur áhuga á að mæta á slíkan fund til að ræða verðtryggingu eða hvað annað sem varðar efnahags- og viðskiptamál.

Um tillöguna. Eins og fram hefur komið eftir meðferð nefndarinnar á málinu fjallar hún um að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra skipi starfshóp sérfræðinga sem meti kosti og galla þess að miða verðtryggingu við hitt og þetta. Það er jákvætt. Eins og fram hefur komið styð ég þá tillögu og mun vitaskuld greiða henni atkvæði í samræmi við það. Mér finnst hins vegar nauðsynlegt að fjalla aðeins um verðtryggingu sem fyrirbæri og þau álitaefni sem þessari tillögu er ætlað að taka á.

Fyrst vil ég segja um verðtrygginguna að það eru kerfisleg rök fyrir því að afnema, eða eins og ég segi; banna verðtryggingu. Mætti þá nefna t.d. ágæt greinaskrif Ólafs Margeirssonar. Þar er margt sem ég er ekki sammála. Ég er ekki alveg sannfærður um allan þann málflutning. Ég tel t.d. ekki að bann á verðtryggingu muni lækka vexti. Ég trúi því bara ekki. Ég hef heyrt kenninguna, en mér finnst hún ekki sannfærandi. Það er ekki flóknara en það. Hins vegar hef ég líka heyrt kenningu og fengið útskýringu á því að verðtryggingin leiði af sér aukna verðbólgu með því að búa til það sem við köllum „feedback loop“, ég kann ekki að segja það á íslensku. Virðulegur forseti hjálpar mér kannski við það.

(Forseti (JÞÓ): Endurgjöf.)

Endurgjöf. Já. Sem sagt endurgjöf af peningum aftur inn í hagkerfið þannig að fjármagn í umferð sem veldur verðbólgu eykst.

Ég er opinn fyrir kenningunni. Ég er ekki endanlega sannfærður um að hún sé rétt. Hins vegar er oft talað um verðtrygginguna sem réttlætismál. Það eru margir vinklar á því. Þá skiptir máli hvaða tímapunkt við erum að tala um. Það var vissulega óréttlátt að mínu mati á sínum tíma að neytandinn hafði ekkert val um hvort lánið væri verðtryggt eða ekki. Mér fannst það óréttlátt þá og finnst það óréttlátt í dag. Hins vegar er það þannig í dag að neytandinn ræður því alfarið sjálfur hvort hann tekur verðtryggt lán eða ekki. Mér finnst litið svolítið fram hjá því atriði eins og mörgum öðrum, alla vega nokkrum í þessari umræðu, því að fólki þykir rétt að vera reitt í þessari umræðu, eðlilega, vegna þess hvernig nýleg fjármálasaga íslensk er. En það breytir því ekki að fólk hefur þetta val. Það getur valið að taka óverðtryggt lán. Ég er með þannig lán sjálfur. Auðvitað felast í því hærri vextir. Ég segi auðvitað vegna þess að það er enginn annar möguleiki. Það er ekkert hægt að hafa það öðruvísi. Auðvitað eru hærri vextir á óverðtryggðum lánum. Það á að segja sig sjálft. Með fyrirvara um tilgátur eins og þær sem komið hafa frá Ólafi Margeirssyni.

Hins vegar er það þannig í dag að neytandinn getur valið um að taka hálfa áhættuna af verðbólgu. Margir mæla með því. Það er ekkert endilega vitlaus hugmynd. En það er eitthvað sem neytandinn þarf að átta sig á hvað þýðir. Ég er enn sem komið er á móti því að banna verðtryggingu vegna þess að ég tel að það myndi einfaldlega útiloka fólk með lægri tekjur frá því að geta tekið lán yfir höfuð. Ég held að vextirnir myndu ekki lækka, vissulega ekki upp að slíku marki að þeir færu niður í að vera þannig að fólk á lægri tekjum réði við þá. Því var nú hreytt framan í mig og fleiri á Facebook um daginn að fólk þessarar skoðunar væri einhvern veginn varðhundar fjárvaldsins og á móti verkalýðnum. Það er akkúrat öfugt. Það eru einungis hagsmunir lágtekjufólks sem fá mig á þá skoðun. Ef ég hefði ekki áhyggjur af hagsmunum lágtekjufólks væri mér alveg sama þótt verðtrygging væri bönnuð. Ástæðan fyrir því að ég vil ekki banna hana er að ég tel það andstætt hagsmunum lágtekjufólks. Það er eina ástæðan. Annars mætti þetta allt vera óverðtryggt mín vegna. Ég hef efni á því vegna þess að ég er á góðum launum og kem úr bransa, forritunargeiranum, þar sem ég get almennt gengið að góðum launum vísum ef ég kýs. Eina ástæðan fyrir því að ég yrði á lágum launum sem forritari er ef ég kysi mér starf sem væri þess eðlis að það væru lægri laun í þeim geira. Ég gæti gert það en það væri þá líka meðvitað val. Ég er í forréttindastöðu þegar kemur að þessu og get tekið óverðtryggð lán á fáránlega háum vöxtum en það eru bara ekkert allir í þeirri stöðu. Langt í frá reyndar.

Að því sögðu — og nú ítreka ég að ég er ekki að tala fyrir alla Pírata, þetta er mín eigin skoðun eins og fram hefur komið — eru hérna nokkrar vísitölur sem verið er að tala um. Tillagan felur í sér að í stað þess að afnema vísitölu yrði frekar miðað við vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar, nánar tiltekið tekin upp svokölluð samræmd vísitala neysluverðs. Hún hefur verið án húsnæðisliðar, alla vega að einhverju leyti. En eins og kemur fram í umsögnum um málið mun það breytast og er væntanlega að breytast núna. Það kom fram í umsögnum um málið þegar það var síðast lagt fram og kom aftur fram núna. Það þýðir að jafnvel ef við tækjum upp samræmda vísitölu neysluverðs, eins og upprunalega tillagan gekk út á, myndi húsnæðisliðurinn samt sem áður fara inn í þá vísitölu. Ástæðan fyrir því að hann er ekki inni í samræmdri vísitölu er að gögnin sem þarf frá húsnæðismarkaði, sér í lagi frá Suður-Evrópu ef ég skil rétt, voru ekki til staðar. Þar af leiðandi gátu þau ekki verið neinn almennilegur mælikvarði þar inni. Eftir því sem það breytist og húsnæðisliðurinn er betur þekktur í Evrópu nálgumst við það að samræmd vísitala neysluverðs muni innihalda þann lið. Þá er orðið tilgangslaust að nota samræmda vísitölu neysluverðs ef markmiðið er að fjarlægja húsnæðisliðinn.

Svo aftur á móti getur vel verið að það sé góð hugmynd að nota samræmda vísitölu neysluverðs frekar en vísitölu neysluverðs. Það getur vel verið. Af einhverju öðrum ástæðum samt.

Það er rétt að minnast á það sem fram kom við meðferð nefndarinnar og kemur fram í innsendum gögnum, að þegar við veltum fyrir okkur hvaða vísitala muni henta neytendum best skiptir máli hvaða tíma við erum að tala um. Akkúrat í dag, ef bara er litið á tímabilið í dag, myndi það henta hagsmunum lántakenda að nota vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar. En það er staðan í dag. Þannig var staðan fyrir hrunið. En hún var ekki þannig rétt eftir hrun heldur þvert á móti. Það er verðmætamat sem við þurfum að gera upp við okkur og þurfum að velta fyrir okkur, nákvæmlega hvaða aðstæðum erum við að reyna að forða fólki frá með því að haga löggjöfinni þannig að vísitalan sem notuð er henti neytendum best. Það er ekkert einfalt svar við því. Núna hentar það þeim betur að vera án húsnæðisliðar, núna þegar við erum á toppi hagsveiflunnar. Fyrir hrun í fjármálafylliríinu sem þá var í gangi, hentaði það neytendum, en rétt eftir hrun hefði það verið slæmt fyrir þá.

Húsnæðisliðurinn hefur dempandi áhrif á verðbólguna í hruni eins og seinast. Ef við hefðum verið að nota samræmda vísitölu neysluverðs, segjum frá árinu 2001 eða eitthvað slíkt, hefði það verið til hagsbóta fyrir neytendur fram að hruni, það hefði verið verra fyrir neytendur í einhvern tíma. Og svo núna væri það aftur betra fyrir neytendur þegar við erum komin á topp hagsveiflunnar. Ef markmiðið er að verja þá tekjulægstu, er þetta á skjön við það markmið. En þar með er ekki öll sagan sögð. Því að eins og þessi ágæta breytingartillaga frá nefndinni kemur inn á snýst þetta um að skoða alla þessa kosti og sér í lagi að veita brautargengi þeirri hugmynd sem mér finnst áhugaverð, sem er að veita neytandanum val. Val um hvernig neytandinn vill haga verðtryggingunni, ef hann kýs að nota hana. Aftur: Það geta allir tekið óverðtryggð lán í dag. Það kostar bara hærri vexti, eðlilega, auðvitað.

En að geta valið úr nokkrum vísitölum — mér finnst það ekkert endilega vitlaus hugmynd. Það gæti eiginlega verið mjög góð hugmynd. Kannski er það misjafnt eftir einstaklingum hvað hentar þeim. Ég veit fyrir víst að það er tilfellið þegar kemur að verðtryggingu, eða hvort fólk vill taka jafngreiðslulán eða lán með afborgunum eða annað.

Þá er líka þess virði að minnast á eina hugmynd sem er rétt komið inn á í nefndarálitinu. Það er sú hugmynd sem kom frá Má Wolfgang Mixa, við annað þingmál að vísu, um að binda vísitölu við húsnæðisverð. Að verðtryggð húsnæðislán, eða vísitala þeirra, yrði bundin við húsnæðisverð, húsnæðisvísitölu. Sem virkar í fljótu bragði miklu skynsamlegra á mig. Ef hrun yrði myndu lánin væntanlega þróast á sama hátt og eignir fólks, myndi ég halda í fljótu bragði.

En við mjög stutta umræðu nefndarinnar um þann kost komu fram vangaveltur um ókosti sem ég verð að segja að ég skildi ekki alveg til hlítar, en ég er feginn því að það sé þarna með. Það er alla vega ekki undanskilið. Ég vona að þá komi fram einhverja vangaveltur um þann kost því að hann gæti hentað sumum. Ekki öllum en sumum. Ef fólk fær val um þessar vísitölur held ég að það sé í eðli sínu gott.

Það er samt ákveðinn galli við það sem mig langar til að vekja athygli á. Það er að aukið val, sér í lagi í þessu, er ekki endilega gott fyrir neytendavernd. Nú skil ég eftir spurninguna um hversu mikla neytendavernd við eigum að hafa. Alþingi veit ekkert endilega best hvað fólk vill, óháð því hvað því er fyrir bestu. En mér finnst alveg ljóst að fyrir hrun var fullt af fólki sem ekki skildi lánin sín. Mér finnst liggja ljóst fyrir í þeirri umræðu sem snýst um verðtryggð lán þar sem lánin voru reiknuð út og sýnd viðskiptavinum, verðtryggð lán, án þess að taka verðbólguþáttinn inn í — að því er virðist, samkvæmt umræðunni sem ég heyri, taldi fólk þá að lánin myndu þróast án tillits til verðbólgu, sem er auðvitað grundvallarmisskilningur á eðli verðtryggðra lána.

Það segi ég ekki til að kenna neytendum um heldur til að benda á að ef ekki er skýr og sterk upplýsingagjöf til staðar gerir fólk mistök án þess að þau séu endilega því sjálfu að kenna. Maður fæðist nú ekki með þessa þekkingu, svo mikið er víst. Ég man ekki til þess að hafa lært þetta í skóla. Það er reyndar ýmislegt sem ég man ekki til þess að ég hafi lært í skóla. En síðan þá hafa fallið dómar um þetta tiltekna atriði og var það dæmt ólöglegt, réttilega, að veita fólki þessi lán án þess að verðbólgan væri reiknuð með. Það er náttúrlega fráleit forsenda ef maður er að taka verðtryggt lán. Fáránlegt fyrir bankann. Fáránlegt að mínu mati og sem betur fer EES-samningsins, að neytandinn geti ekki treyst bankanum til að sýna að verðbólga er vissulega með í spilinu ef lánið er verðtryggt. Það er ákveðin lágmarkskrafa, myndi maður halda.

Eftir stendur að þetta hefur vafist fyrir fólki og fleira í lánamálum vefst fyrir því. Fólk er bara að reyna að kaupa íbúð þegar það tekur þessi lán. Það er ekkert endilega að fara að henda sér út í einhverja fjármálaspeki og gera greinarmun á jöfnum afborgunum og jafngreiðslulánum og verðtryggingu og hálfri verðtryggingu og öllu þessu. Eftir stendur að fólk lítur á eftirfarandi: Hvað get ég borgað og hvað þarf ég að borga? Og slær til. Eðlilega. Fólk ætlar ekki að vera neinir sérfræðingar í fjármálum til þess að kaupa sér íbúð. Þótt það sé auðvitað æskilegra er það varla grunnkrafa.

Það eru áhyggjurnar sem ég hef, ef um stóraukið val af vísitölu er að ræða, að auðveldara sé að blekkja neytendur að þessu leyti.

En eins og ég sagði styð ég hugmyndina. Hugmyndin finnst mér í eðli sínu góð. Það er bara neytendaverndarvinkill þarna sem við þurfum að hafa í huga þegar fram líða stundir.

Fyrirvarinn sem ég vildi tilgreina sérstaklega samkvæmt nefndarálitinu er sá að þrátt fyrir það sem ég hef talað um áður tel ég sjálfur ekki neina sérstaka þörf á því að koma verðtryggingu fyrir kattarnef. Ég sé ekki sérstaka þörf á því. Það er ekkert endilega lánaform sem hentar mörgum, eða flestum. Það fer eftir aðstæðum hvers og eins. Ég sé það ekki sem sjálfstætt markmið, með fyrirvara um að hugsanlega sé verðtrygging á einhvern hátt kerfislega slæm fyrir hagkerfið. Þar er ég bara með eyrun opin og til í að heyra rök fyrir því, en er enn sem komið er er ég ósannfærður.

Miklu mikilvægara finnst mér að á meðan við erum með íslenska krónu, sem mér sýnist að verði í einhvern tíma í viðbót, verði hér gengisóstöðugleiki. Ef við ætlum að hafa frjálst flæði fjármagns verður það þannig. Ekkert kannski, hugsanlega eða líklega, það verður þannig. Við getum alveg gefið okkur það. Þá þurfa íslenskir neytendur, lána sem annarra hluta, að alast upp í umhverfi sem býr til einhvers konar almenna skynsemi gagnvart fjármálum sem er sérfræðiþekking í heilbrigðari hagkerfum. Eða alla vega dýpri en almenn þekking á fjármálum. Á íslensku er það stundum kallað fjármálalæsi. Ég er í stuttu máli að segja að við verðum að efla fjármálalæsi verulega. Það þarf að vera hluti af einhvers konar menningarlegu viðhorfi okkar til peninga og fjármála. Þetta er ekkert einfalt, ekkert auðvelt. Það er fullt af alls konar leiðindapólitískum spurningum inni í þessu líka. Og reyndar líka skemmtilegum pólitískum spurningum. En ég sé ekki fram á að við getum haft heilbrigt hagkerfi á Íslandi meðfram íslenskri krónu og frjálsu flæði fjármagns án þess því að það verður óstöðugleiki í þessu.

Meðan það verður óstöðugleiki þarna fullyrði ég að við verðum með verðtryggingu af einhverju tagi. Ef við verðum ekki með verðtryggingu þá verðum við ekki með langtímafjárfestingar, eins og húsnæðislánin. Það er enginn ókeypis matur í þessu. Það er engin leið til að gefa fólki peninga. Það fylgir því alltaf einhver kostnaður að vera með verðbólgusækinn gjaldmiðil eins og við erum með. Verðtryggingin er birtingarmynd þess vanda. Ég er ekkert sérstaklega hlynntur verðtryggingu, hún er ill nauðsyn í mínum huga. Hún flækir hlutina. Meðal ástæðna þess að ég vildi ekki taka verðtryggt lán sjálfur á sínum tíma var að ég vildi geta reiknað lánin mín. Það er ákveðinn ókostur við verðtryggð lán. Það er erfiðara, reyndar ómögulegt, að reikna þau fram í tímann því að maður veit ekki verðbólguna fyrir fram. Ég kaus að borga hærri vexti, m.a. þess vegna, en líka vegna þess að ég hafði efni á því og eignamyndunin er hærri, eins og fólk veit vonandi.

Að öllu þessu sögðu segi ég að mér finnst samt mikilvægt, þrátt fyrir þær skoðanir sem ég hef sjálfur, að upplýsingar um þetta liggi fyrir. Að greiningarnar séu sem flestar og að skoðað sé hvað sé best, hvaða vísitala gæti hentað, hverjum hún gæti hentað, upp að hvaða marki sé best að hafa val, hvernig við eigum að haga neytendavernd þar á móti. Þetta er allt saman mikilvæg umræða og leiðir öll sömul beinustu leið yfir í íslensku krónuna, eins og ég fór yfir áðan. En ég held bara ekki að þetta umræðuefni fari neitt frá okkur í bráð. Við getum ekki einfaldlega sagt að verðtryggingin sé í lagi og allt í góðu. Það er ekki þannig. Hún er vandamál. Verðtryggingin er vissulega það sem við köllum í mínum bransa skítamix. Ég kann bara ekki kurteislegra orð yfir það, virðulegi forseti. En eins og ég segi styð ég málið.

Og á örfáu síðustu sekúndunum langar mig að nefna að mér finnst við á Alþingi þurfa að skilja hlutverk okkar vel. Það er göfugt í eðli sínu að vilja búa þannig um hnútana að fólk njóti betri kjara. Það er göfugt markmið og ég tek ofan fyrir því. En við getum samt ekki leyft okkur að falla í þá gryfju að ætla okkur að taka ákvarðanir um hvaða lánsform sé best fyrir alla. Vegna þess að það er einfaldlega misjafnt eftir aðstæðum fólks. Ég lít svo á að hlutverk okkar hér sé að veita val, veita frelsi, veita upplýsingar, tryggja að neytandinn sé upplýstur, geti tekið upplýsta ákvörðun, og að aðstæður lánamarkaðarins séu þannig að fólk geti keypt sér íbúð ef það svo kýs. En umfram það (Forseti hringir.) lít ég ekki á það sem hlutverk mitt að segja fólki hvort það eigi að taka verðtryggð eða óverðtryggð lán. Fólk á að hafa val.