148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

tollasamningur ESB og Íslands um landbúnaðarvörur.

[13:49]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta er nú ekki ný umræða. Byrjum á neytendum. Fyrir þremur árum gaf Viðskiptaráð Íslands út bækling sem heitir Hverjar eru okkar ær og kýr?

Þar segir, með leyfi forseta:

„Sé litið til allra heimila myndi afnám tolla skila neytendum um 10 milljarða kr. á ári í formi lægra vöruverðs.“

Og:

„Afnám tolla á allar landbúnaðarvörur myndi spara fjölskyldu um 80 þús. kr. í matarútgjöld á ári.“

Þetta skiptir máli. Þetta eru neytendurnir.

Þegar kemur að búvöruframleiðendum skulum við horfa til þess hverjar meginástæður eru fyrir álagningu tolla á innflutt matvæli. Tekin var saman greinargerð af stjórnvöldum, undir stjórn Geirs H. Haardes, þetta er eins og ég segi ekki ný umræða.

Þar kemur fram, við skulum byrja á atriði númer fjögur, tekjuöflun ríkissjóðs. Það er afgreitt á þann hátt að þetta væru einar 150 milljónir, sem þá voru inni, en áætlað var að í formi meiri umsvifa kæmu 900 milljónir til baka. Ríkissjóður myndi græða á þessu.

Þriðja atriðið, neyslustýring, þ.e. að tollum yrði beitt til að draga úr eftirspurn á vörum sem taldar væru óhollar eða óæskilegar; það eru alls konar sykurskattar og aðrar leiðir sem hægt er að fara í því efni.

Númer eitt: Vernd fyrir innlenda búvöruframleiðslu. Ó, já það eru hagsmunir sem þarf að horfa til; að verja innlenda búvöruframleiðslu á alls konar forsendum. Alls konar gildi liggja þar að baki og það er málefnalegt að horfa til þess. Sér í lagi fyrst slík vernd hefur verið til staðar, að hún sé þá ekki felld úr gildi nema á málefnalegum forsendum og með þannig mótvægisaðgerðum að það komi ekki harkalega niður á búvöruframleiðendum.

Þá er spurning: Hvað er hægt að gera?

Fyrst tollar eru svona óskilvirk leið, þeir kosta neytendur svo miklu meira en ígildi verndarinnar fyrir búvöruframleiðendur, er hægt að ná þessum peningum inn með öðrum hætti; fella niður tollana, ná þessum tekjum inn, (Forseti hringir.) skila þeim til búvöruframleiðenda í formi styrkja en afgangurinn myndi skila sér í lægra matvöruverði og ríkissjóður myndi græða pening. Neytendur græða, (Forseti hringir.) búvöruframleiðendur græða, stjórnvöld og ríkissjóður græða. Við græðum öll á að fara þá leiðina. Nema hvað tollverndin (Forseti hringir.) er svolítið vernd til lengri tíma. Við skulum skoða það í næstu ræðu minni.

(Forseti (GBr): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk.)