148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[16:11]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Það er nú kannski einmitt rót málsins þegar upp er staðið. Þegar við horfum til skýrslu Seðlabankans þá var niðurstaðan alveg skýr þar, Seðlabankinn taldi evruna vænlegasta kostinn; taldi síðan upp nokkra aðra kosti sem mætti skoða, en kannski næstan þar á eftir einhvers konar útgáfu af sjálfstæðri peningastefnu, en þó væri evran sennilega best. Það var reyndar athyglisvert hve lítið þingið gerði með þá skýrslu á sínum tíma. Hún var afskaplega lítið rædd. Seðlabankinn var í raun að varpa boltanum yfir til stjórnmálanna sem einfaldlega gripu hann ekki, tóku ekki við honum og málið koðnaði bara niður.

Nú eigum við von á annarri skýrslu, eða vinnu sem sett var af stað í tíð síðustu ríkisstjórnar, um möguleika hvað varðar endurskoðun peningastefnunnar. Þar var reyndar undanskilinn kosturinn með evruna, enda kannski skýr niðurstaða í skýrslu Seðlabankans hvað hann varðaði. En það verður mjög áhugavert að taka umræðuna um kosti og galla þeirra lausna sem þar verður vonandi að finna.