148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

endurskoðun XXV. kafla almennra hegningarlaga.

113. mál
[16:53]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Við ræðum tillögu um að vísa þessari annars ágætu þingsályktunartillögu til ríkisstjórnarinnar. Hún snýr að því að endurskoða þann kafla almennra hegningarlaga er snýr að meiðyrðamálum, sem er þarft og gott verk.

Mér finnst hins vegar ótrúlega furðulegt að það sé ekki löngu búið að græja þetta. Í fyrsta lagi er Ísland í hópi með löndum eins og Aserbaídsjan sem hafa enn þá fangelsisrefsingu við tjáningu og það er eitthvað sem ætti að vekja okkur öll til umhugsunar. Í dag er alþjóðlegur dagur fjölmiðlafrelsis og í dag er líka lögð sérstök áhersla á það í því samhengi að skapa fjölmiðlum vinveittara lagaumhverfi en víða finnst. Á Íslandi er ekki hægt að segja að lagaumhverfið sé fjölmiðlum vinveitt, síður en svo. Meiðyrðalöggjöf er ítrekað beitt til þess að draga fé frá einstökum fjölmiðlum sem fara með óþægilega fjölmiðlaumfjöllun, með algjörlega tilhæfulausum meiðyrðakærum sem vitað er að munu að öllum líkindum ekki vinnast vegna tjáningarfrelsisins og vegna fjölmiðlafrelsisins, sem dómstólar landsins virðast vera orðnir aðeins betri í að vernda en þeir voru. Ástæðan er náttúrlega þessi fjöldi dóma sem Mannréttindadómstóllinn hefur gefið út á hendur Íslandi fyrir brot á tjáningarfrelsinu, við stóðum ekki einu sinni nógu vel vörð um tjáningarfrelsið, ekki einu sinni í dómskerfinu.

Í dag eru líka 199 dagar frá því að lögbann var sett á umfjöllun Stundarinnar, tólf dögum fyrir kosningar, um fjármálagjörninga þáverandi forsætisráðherra í aðdraganda bankahrunsins 2008, þegar hann sat sem þingmaður, núverandi hæstv. fjármálaráðherra. Í dómi héraðsdóms í því máli kemur fram að það alvarlegasta við einmitt það mál, eða það er alla vega þannig sem ég les í þetta, er að sjálfsögðu að lögbannið var þess eðlis að það hefði getað verið inngrip í frjálsar og lýðræðislegar kosningar með því að halda upplýsingum frá kjósendum svona stuttu fyrir kosningar, upplýsingum sem vissulega áttu erindi við almenning.

Mér er spurn, sérstaklega á þessum alþjóðlega degi fjölmiðlafrelsis, hvers vegna það er ekki meira uppnám yfir þessu ástandi. Þegar ég lýsi þessu ástandi fyrir kollegum mínum á Evrópuráðsþinginu þá verða þeir frekar hissa og hvá svolítið og segja: Þetta er svolítið eins og í Rússlandi eða Tyrklandi, að það sé hægt að loka bara á frjálsa fjölmiðlun, á óþægilegan fréttaflutning. Það veldur vissulega áhyggjum hversu auðvelt er að draga úr frelsi fjölmiðla til þess að flytja fréttir á Íslandi með meiðyrðamálum sem og með lögbanni. Almennt lagaumhverfi ræktar ekki fjölmiðlana okkar, styrkir þá ekki og styður ekki þeirra starf.

Ég hef áður farið í þessum ræðustól yfir ýmsa hluti sem ég tel hafa umtalsverðan kælingarmátt á frjálsa umræðu á Íslandi og frjálsa fjölmiðlun og ætla ekki að fara yfir það í löngu máli hér og nú, en hins vegar langar mig að vekja athygli á sérstaklega tveimur frumvörpum sem við Píratar höfum lagt fram sem hafa ekki fengið að komast til 1. umr. enn þá. Annað þeirra er mál sem fjallar um rökstuðning við málskostnaðarákvarðanir. Þegar málskostnaður er felldur niður í meiðyrðalöggjöf viljum við að það þurfi sérstaklega að rökstyðja þá ákvörðun. Það er talsvert algengara að málskostnaður sé felldur niður í meiðyrðamálum en í öðrum málum. Það þýðir að fjölmiðill kann að sitja uppi með mjög háan málskostnað án þess að hafa brotið lög. Þessi venja að fella niður málskostnað getur stuðlað að því að fjársterkir aðilar eigi einmitt auðvelt með að skapa fjölmiðlum mikinn kostnað vegna ítrekaðra málshöfðana og þannig haft mikil kælingaráhrif á tjáningarfrelsið.

Með þessu frumvarpi okkar er það gert að skyldu dómstóla að rökstyðja sérstaklega þegar málskostnaður er felldur niður. Þannig getum við átt upplýsta umræðu um þær venjur sem hafa myndast í málaflokknum og hvort tilefni sé til að breyta viðteknum venjum þegar að þessu kemur. Þetta er mikilvægt frumvarp vegna þess að það styrkir réttarstöðu fjölmiðla gagnvart tilhæfulausum meiðyrðamálum og mér finnst afskaplega mikilvægt að við styrkjum þá í þeirri stöðu.

Annað frumvarp sem við höfum lagt fram fjallar um málskot í meiðyrðamálum. Því er ætlað að jafna hlut málsaðila í meiðyrðamálum því að í frumvarpinu er lagt til að ávallt verði heimilt að áfrýja máli til æðra dómstóls í ærumeiðingarmálum. Til þess að áfrýja megi dómum þarf að ná ákveðinni áfrýjunarfjárhæð ellegar sækja um áfrýjunarleyfi, en þar sem áfrýjunarfjárhæð miðast við dómkröfur í sýknudómi en við dæmdar bætur í sakfellingarmáli er miklu algengara að áfrýjunarfjárhæð sé náð í sýknumálum. Í dag ríkir þannig talsvert ójafnvægi á milli málsaðila varðandi aðgengi að dómstólum þar sem auðveldara er að áfrýja sýknudómum heldur en sakfellingardómum. Með frumvarpinu er lagt til að það ójafnvægi verði rétt af og vernd tjáningarfrelsis í ærumeiðingarmálum aukin með því að heimila alltaf áfrýjun í þessum málum.

Þetta frumvarp snýr líka einfaldlega að því að styrkja réttarríkið á Íslandi þannig að það sé jafnræði á milli málsaðila í dómsmálum sem þessum. Það er auðvelt að koma fram með meiðyrðamál og krefjast milljón króna í skaðabætur, tapa því máli og áfrýja því svo. Það er erfiðara fyrir hinn málsaðilann að áfrýja. Tapi fjölmiðillinn t.d. málinu og vilji áfrýja til Hæstaréttar, eða Landsréttar núna, eru bæturnar kannski bara 250 þús. kr. og ná því ekki áfrýjunarfjárhæðinni. Þá þarf að sækja um leyfi og þetta setur fólk í ójafna stöðu þegar kemur að því að geta leitað til æðra dómstigs og við viljum jafna þá stöðu.

Hvað varðar þessa nýju nefnd þá vil ég taka fram að ég fagna því að hún hefur tekið til starfa og hún ætli að skila tillögum um betrumbætur á löggjöf okkar sem varðar tjáningarfrelsi því að af mjög mörgu er að taka. Mér finnst hins vegar fáránlegt hvað það hefur tekið langan tíma að koma löggjöf okkar í þannig stand að hún standist alþjóðlegar skuldbindingar sem við höfum verið aðilar að í áratugi. Við ættum að vita betur en að vera með jafn heftandi löggjöf og við höfum í raun og veru haft hingað til gagnvart tjáningarfrelsinu.

Þess má geta einmitt að þingsályktunartillaga um að Ísland verði leiðandi í vernd tjáningarfrelsisins var samþykkt á þingi árið 2010, það eru komin átta ár síðan. Það eru komin nokkur ár síðan frumvörp til þess að laga þessa stöðu voru tilbúin í ráðuneytunum. Þau hafa bara beðið þar í einhverri skúffu án þess að eitthvað sé gert í málinu. Það er náttúrlega mjög miður að við séum ekki komin lengra en þetta.

Mér finnst kannski einna sorglegast að á alþjóðlegum degi fjölmiðlafrelsis sé enn þá í gildi lögbann á fjölmiðil vegna umfjöllunar sem á erindi við almenning og það séu ekki allir bara brjálaðir yfir því. Ég er brjáluð yfir því og ég er ekki viss um að fólk átti sig á því hvað það er hættulegt lýðræðinu að við berjumst ekki á móti svona stöðu. Ef við leyfum þessu að viðgangast á hendur einum fjölmiðli þá styttist óðum í að hægt sé að stöðva alla umfjöllun sem ekki þykir þægileg fyrir valdhafa og þá styttist í endalok lýðræðis okkar. Það vil ég ekki sjá.