148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:13]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér áfram um að færa kosningaaldur úr 18 árum niður í 16 ár, að 16 börn fái kosningarrétt í sveitarstjórnarkosningum. Það mál var til umræðu hér fyrir páska. Ég tók þátt í umræðunni þegar málið var lagt fram. Þegar Andrés Ingi Jónsson, hv. 9. þm. Reykjavík norður, mælti fyrir frumvarpinu varð mér að orði að ég væri frekar „impóneraður“ yfir því — ekki gott orð yfir það — í þeim skilningi að þar væri verið að reyna að auka áhuga og þátttöku unglinga í pólitík. Við sem eldri erum og sem tekið höfum þátt í pólitík höfum haft áhyggjur af hvað ungt fólk hefur lítinn áhuga á þessum málum. Í umræðunum fyrir páska greip ég boltann á lofti og kom upp í andsvar og sýndi málinu mikinn áhuga og sagðist ætla að fylgjast vel með málinu þegar umræðu yrði áfram haldið.

Upp hafa komið mörg álit í málinu síðan sem fjallað var um í nefndinni. Það sem stoppaði málið fyrir páska var að meginhluta til að stutt væri til kosninga og að vinna yrði málið betur. En ég hef nú skoðað það fram og til baka og leitað upplýsinga, m.a. annars staðar á Norðurlöndum þar sem gerðar hafa verið tilraunir. Í Noregi drógu þeir lækkun kosningaaldurs til baka á sínum tíma. Í Danmörku færðu þeir aldurinn ekki niður heldur fóru meira í það að fræða unglinga um pólitík og stjórnmál yfirleitt. Það hefur aukið áhuga unglinga þar í landi mikið með þeirri aðferð, meira með hálfgerðum áróðri og upplýsingum pólitík.

Hér var umræða um aldurinn 16 ára, 17 ára, 18 ára, 19 ára og tvítugt, að börn yrðu fullorðin í þrepum, eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni: 17 ára fáum við bílpróf, 18 ára megum fara inn á vínveitingastaði en ekki drekka áfengi og þar fram eftir götunum. Væri þá ekki sniðugt að skoða það að samræma þetta allt á sama aldur?

Það er margt þess háttar sem orðið hefur til þess að ég er ekki endilega þeirrar skoðunar að börn eigi að kjósa yngri en 18 ára nema að vel athuguðu máli og eins að samræma það á sama aldur.

Ég er sammála því að málið verði dregið til baka og fari til ríkisstjórnarinnar. Þar verði það tekið upp og það unnið eins lengi og þarf og vandað til verksins þannig að hægt sé að koma með vandaða vinnu og taka ákvörðun út frá því.

Ég hef hitt margt ungt fólk eftir að þetta mál kom upp og spurt unglinga — það er unglingar í kringum mig, ég á börn og hitti margt ungt fólk. Það er hverfandi áhugi á því að kjósa hjá börnum sem eru yngri en 18 ára og jafnvel þeim sem orðin eru 18 ára. En svo hafa komið ályktanir og ummæli frá aðilum sem segja bara: Látið unga fólkið í friði, leyfið því að vera börn.

Ég myndi segja að að svo komnu máli ættum við að taka upp meiri fræðslu og vekja umræðu hjá ungu fólki og við ungt fólk og vekja þannig áhuga þess á pólitík og stjórnmálum, að það finni að það skiptir máli, en ekki bara láta það kjósa til að láta það kjósa án þess það hafi myndað sér skoðanir á því.

Að því sögðu ætla ég ekki að hafa fleiri orð í bili um þetta mál.