148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir ágæta ræðu. Nokkur atriði komu upp í hugann þegar á hana var hlustað. Mig langar að beina nokkrum spurningum til hans. Í fyrsta lagi: Nú liggur fyrir að ákvörðun hefur verið tekin um að vísa svokölluðu umskurðarfrumvarpi til ríkisstjórnar. (AIJ: Nei.) Nú? (Gripið fram í: Ekki …) Þá eru fréttir á villigötum hvað það varðar. Áhugavert að það komi fram hér í sal með leiðréttingu hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar.

Ég sá viðtal áðan við hv. þm. Kolbein Óttarsson Proppé í Stundinni þar sem hann sagðist standa á gati varðandi það að við þingmenn Miðflokksins værum ósammála um málið vegna tillögu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, sem nú hefur verið tilkynnt að hafi verið dregin til baka, og síðan frávísunartillögu sem ég nefndi í ræðu minni áðan. Þetta er auðvitað sáraeinfalt. Það var lögð fram tillaga sem var má segja sáttatillaga á sama tíma sem er slegið á með breytingartillögu hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés núna.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um er: Hvaða meinbugi sér hann fyrst og fremst á því að ríkisstjórnin taki þetta til dýpri skoðunar með það fyrir augum að skoða fleiri aldurstengd atriði? Þykir hv. þingmanni það vera ótæk nálgun á málið í heild að víkka það út með þeim hætti sem mjög margir þingmenn hafa talað fyrir hér í pontu?