148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:31]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið, þó að hann sé styttri í spuna en oft er, hann er með glaðlyndustu ræðumönnum hér í þingsal. Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé sagði í viðtali sem ég held að hafi verið á Sprengisandi, en það gæti hafa verið í Víglínunni, einum af þessum spjallþáttum, strax eftir að málið var rætt hér síðast að hann teldi málið í sjálfu sér vera fallið. Ég held að það hafi verið orðalagið, hann leiðréttir mig þá. En alla vega á þeim nótum að hann reiknaði ekki með að það yrði tekið upp aftur.

Hver er nauðsyn þess að klára það núna að áliti hv. þingmanns, samanborið við að vísa því annaðhvort til ríkisstjórnar til frekari vinnslu eða taka það upp með tilliti til frekari skoðunar á aldurstengdum réttindum? Er einhver önnur leið fær í huga þingmannsins en sú sem hann leggur til, að fresta einvörðungu gildistökunni til júní á þessu ári? Það má öllum vera ljóst að það eru miklar efasemdir hjá mörgum hér í salnum um að það sé skynsamlegt. Telur þingmaðurinn ekki að það væri ástæða til að gefa málinu tíma til að þroskast aðeins? Auðvitað þroskaðist það dálítið í umræðunni sem hér fór fram, fyrri hluta 3. umr. En það má heldur ekki gleyma því að fyrri umræða á þingi styrktist allverulega þegar menn áttuðu sig á að það voru bara stuðningsmenn málsins á mælendaskrá og þeir tóku sig allir af mælendaskrá til að klára þá umræðu. Það hefur nú einhverjum trikkum verið beitt, líka á fyrri stigum, við að koma málinu áfram án þess að þau væru sérstaklega málefnaleg.