148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:33]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum að minnsta kosti ekki sammála ef hv. þingmaður er að kvarta yfir því að málið hafi ekki fengið nægan tíma til umræðu í þingsal. Það eru býsna margar stundirnar sem hafa farið í það, sem er vel því að þetta er mikilvægt mál.

Ég verð að játa, virðulegur forseti, að ég einfaldlega man ekki eftir umræddu viðtali. [Kliður í þingsal.] Kannski er hv. þm. Ólafur Ísleifsson að spila það núna. Kannski ég þagni og heyri hvað er á ferð. En ekki man ég nákvæmlega hvaða orð ég lét falla í umræddu viðtali. Mörg voru viðtölin um þessi mál því að þetta er mál sem margir hafa skoðun á.

Án þess að ég ætli að geta eitthvað sérstaklega í eyðurnar var ég á þessum tíma að ræða það að sennilegast væri málið þannig vaxið að það næðist ekki að gera breytingar á því fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar, sem er augljóst að ég er enn sama sinnis, samanber breytingartillögu mína núna.

Hvað varðar að vísa málinu aftur til ríkisstjórnarinnar eða hvort mín leið sé sú eina rétta: Nei, það eru nokkur ár síðan ég lét af þeirri trú minni að ég hefði alltaf rétt fyrir mér, virðulegur forseti, að mín leið væri alltaf sú eina rétta. Ég hef verið tilbúinn að hlusta á hvað aðrir hafa fram að færa. Það hef ég gert með opnum huga í þessari umræðu, í nefndinni hvar gestir hafa komið. Við brugðumst við áliti margra gesta í nefndaráliti í hv. stjórnskipunar og eftirlitsnefnd. Þegar hefur verið brugðist við þannig að ekki er lengur hugsunin að það taki gildi fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Ef það er krafa okkar hv. þingmanna, ef um mál er ágreiningur í þingsal, (Forseti hringir.) að því verði vísað til ríkisstjórnar til að vinna að því að allir þingmenn séu sáttir við það (Forseti hringir.) og farið í gegnum þingmálin með einum rómi, ja, þá munum við ekki afgreiða nein mál úr þessum þingsal.