148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[19:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er eitt af því sem þarf svo sannarlega að skoða sem hv. þingmaður nefndi hér. Hvernig ætlum við að halda utan um börnin? Hvernig ætlum við að halda utan um þá sem fá þennan rétt þannig að hægt sé að segja með vissu þegar að því kemur að þessir einstaklingar hafi þroska og tækifæri til þess að kynnast því hvað það er að hafa þennan rétt. Ég get tekið undir það.

Mig langar í seinna andsvari að velta einu upp við hv. þingmann, sem hefur efasemdir um að rétt sé að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar, allt í lagi með það, ég virði það algjörlega. Það gefur okkur hins vegar færi á að taka á þeim mismun sem er í kerfinu hjá okkur þegar kemur að því að verða sjálfráða, kaupa áfengi, keyra bíl o.s.frv. Það gefur okkur færi á að fara í heildarendurskoðun á öllu systeminu. Með því að vísa til ríkisstjórnarinnar þá gæti hún, því að það eru væntanlega einhverjir hérna inni sem styðja hana, tekið málið í fangið og sinnt því af alúð og komið fram með þingmál fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar (Forseti hringir.) sem væri þannig að menn gætu sameinast um það.