148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[19:27]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir prýðisgóða ræðu. Ég hjó eftir því að þingmaðurinn talaði um að við yrðum að breyta svona lögum í breiðri sátt. Ég tek algjörlega undir það. Hann vitnar í Benedikt Gröndal sem flutti frumvarp um svipað mál 1965. Það varð að lögum nokkrum árum seinna. En í því ljósi langar mig að spyrja þingmanninn hvort við ættum ekki, af því ég er sammála honum um að við eigum að vanda okkur, að ganga enn lengra í því og tala líka um bílprófsaldur og sjálfræðisaldur.

Ég var eitthvað að gúgla hér áðan og langar til, með leyfi forseta, að vísa í spurningu sem 14 ára gömul stúlka sendi umboðsmanni barna fyrir tveimur eða þremur árum. Hún spyr: Verður maður ekki fjárráða 16 ára og sjálfráða 18 ára? Þá svarar umboðsmaður: Nei, einu sinni urðu börn sjálfráða 16 ára en fjárráða 18 ára. 1997 var þessu breytt þannig að sjálfræðisaldurinn var hækkaður í 18 ár. Fólk verður því bæði sjálfráða og fjárráða 18 ára. 18 ára aldurinn er líka kallaður lögræðisaldur.

Mig langar að spyrja þingmanninn: Ættum við ekki að vanda okkur enn meira og ræða jafnvel í sömu andrá um bílprófsaldurinn? Hæsta slysatíðni í umferðinni er hjá ungu fólki, drengjum og stúlkum sem eru 17 til 18 ára.