148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

heimaþjónusta Karitas.

[13:41]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Heimaþjónusta Karitas hefur í rúmlega 20 ár þjónustað sjúklinga í heimahúsum vegna alvarlegra sjúkdóma. Um 300 manns á ári hafa fengið að njóta þjónustu hjúkrunarfræðinga fyrirtækisins, en í mörgum tilvikum er um að ræða lífslokameðferð þeirra sem eru með krabbamein. Heimaþjónusta Karitas er samt mun meira en bara hjúkrunarþjónusta. Að sinna sjúklingum í heimahúsi dregur úr álagi á heilsugæslu og spítala og þá einkum á krabbameinsdeild Landspítalans og heimahlynningu Landspítalans. Karitas sinnir sjúklingum á mun persónulegri máta en hægt er á spítölum og dregur líka úr álagi þeirra sem nota þjónustuna.

Í haust mun þessi heimaþjónusta að óbreyttu leggjast af. Samningar Karitas við Sjúkratryggingar Íslands runnu út í fyrravor og ekkert hefur þokast í samningum við Sjúkratryggingar Íslands um áframhaldandi samstarf. Breytingar sem Karitas vill gera á samningum svo hann endurspegli betur raunveruleikann hafa ekki hlotið hljómgrunn hjá Sjúkratryggingum Íslands.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hver er afstaða ráðherra til heimaþjónustu Karitas?

Er vilji fyrir því að semja við fyrirtækið um áframhaldandi starfsemi?

Hvort vill hæstv. ráðherra sjá þessa þjónustu áfram hjá einkaaðilum sem hafa sinnt henni með prýði eða innan heilsugæslu og/eða Landspítala?

Síðast en ekki síst: Ef starfsemi Karitas leggst af 1. september 2018 hvað kemur í staðinn?

Hvernig hyggst ráðherra mæta auknu álagi og kostnaði sem mun koma til með að falla á Landspítalann og heilsugæslu í haust?

Sérþekking Karitas á líknandi og lífslokameðferð spannar yfir 20 ár. Hvernig mun ráðherra koma í veg fyrir að þessi þekking einfaldlega hverfi þegar starfsemin hættir í haust?