148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

frumvarp um persónuvernd.

[14:03]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Forsaga þessa máls er sú að árið 2016 samþykkti Evrópusambandið reglugerð um persónuvernd. Það hefur því legið fyrir að það hefur þurft að taka þessa reglugerð upp í EES-samninginn. EES-ríkin, EFTA-ríkin, eru skuldbundin til þess að taka reglugerðina upp. Ólíkt þeim gerðum sem EFTA-ríkin taka yfirleitt upp á grundvelli EES-samstarfsins er þessi gerð reglugerð, eins og ég nefni hana, ekki tilskipun. Það þýðir að reglugerðina sjálfa þarf að innleiða í EES-rétt eins og hún kemur fyrir algerlega óbreytta. Það hefur því legið ljóst fyrir frá árinu 2016 hvert efni þessarar gerðar væri. Ísland hefur haldið til haga hagsmunum sínum í þessu, hvað varðar fullveldi ríkisins í þessum efnum, og gerði athugasemd við að gert væri ráð fyrir að Ísland tæki þátt í evrópsku persónuverndarstofnuninni án atkvæðisréttar þar í stað þess að styðjast við hið svokallaða tveggja stoða kerfi sem við gerum venjulega þegar við tökum upp samstarf sem þetta á vettvangi EES.

Það gekk hins vegar eftir að fá Evrópusambandið til að fallast á að þetta væru mjög sérstakar aðstæður og það yrði ekki fordæmisgefandi í framtíðinni. Með sérstakri yfirlýsingu annarra EFTA-ríkja og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins féllst Ísland á að taka þátt í því að innleiða reglugerðina með þeim hætti að taka þátt í þessari evrópsku persónuverndarstofnun. Það lá ekki fyrir fyrr en um áramótin.

Hitt er annað mál að frumvarpið liggur nú nýlega fullklárað fyrir hjá dómsmálaráðuneytinu, hefur verið í kostnaðarmati hjá fjármálaráðuneytinu og í yfirlestri hjá forsætisráðuneytinu. Ég hyggst leggja það fyrir Alþingi á næstu dögum.