148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[16:14]
Horfa

Frsm. fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir hans góðu spurningu, góða andsvar. Þetta er það sem nefndin horfðist í augu við; að fylgja lögum um opinber fjármál og skilgreiningu ríkistekna, sem kemur fram í 51. gr. þeirra laga, og þeim sjónarmiðum sem snúa að því að einfalda allt reikningshald. Í grunninn snýr þetta að reikningshaldi, það að tekjurnar fari í ríkissjóð. Fjárstjórnarvaldið er alltaf Alþingis á endanum. Þetta eykur flækjustig. Nú erum við að leggja af það sem heitir lokafjárlög. Í lokauppgjöri ríkisreiknings og lokafjárlaga hefur þetta verið ákveðið flækjustig.

Í nefndaráliti á bls. 2, þar sem við förum inn á markmið lagasetningarinnar, kemur þetta allt fram. Það er hárrétt, sem hv. þingmaður bendir á, að frumvarpið felur í sér málamiðlun. Til dæmis er vinnumarkaðurinn tekinn út fyrir sviga. Nefndin tók undir að þetta samtal þyrfti að eiga sér stað. Þar eru tekjurnar markaðar í ákveðnum hlutföllum af tryggingagjaldi og á sér jafnvel stað í samningum aðila á vinnumarkaði.

Síðan eru þjóðréttarlegar skuldbindingar sem ég veit að hv. þingmaður þekkir mjög vel; Íslandsstofa og þættir þar sem ekki er verið að stíga skrefið til fulls. Að því leyti er þetta málamiðlun. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að kannski hefði verið heppilegra að stíga skrefið alla leið og láta á það reyna. En hér er um málamiðlun að ræða. Það er hárrétt.