148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[16:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að nefndin geri í raun vel að vara við og taka út fyrir sviga og benda á að ákveðna hluti þurfi að vinna betur eða útfæra og eyða allri óvissu með. Ég velti því fyrir mér hvort hér séu akkúrat þeir hlutir sem einna helst þyrfti að skýra, þegar kemur að lögum um opinber fjármál, hvað varðar markaðar tekjur eins og markaðsgjaldið sem rennur til Íslandsstofu þar sem það er í raun framlag atvinnulífsins til þeirrar starfsemi.

Ef við hins vegar ætlum að fara alla leið, sem lög um opinber fjármál segja okkur, þarf þetta að sjálfsögðu allt að fara undir þennan hatt. Þar af leiðandi hef ég, reyndar á mjög stuttum tíma, verið að móta mér þá skoðun að kannski hefði verið betra að geyma þetta mál og vinna það einfaldlega ítarlegar og nánar. Ég velti því aðeins fyrir mér hvort sérstakur þrýstingur hafi verið á að þetta mál kláraðist. Ég fæ ekki séð hvers vegna það ætti að vera. Jú, að sjálfsögðu auðveldar þetta utanumhald og er, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, meira tengt reikningshaldi.

Hins vegar eru teknir út fyrir jöfnuna stórir og mikilvægir þættir sem kosta mikla peninga og væri eðlilegra að sjá þarna undir ef menn ætluðu að ganga alla leið. Auðvitað er það freistandi fyrir okkur, sem sjáum lítillega eftir því að hafa samþykkt þessi nýju lög um opinber fjármál, að sjá þetta ganga aðeins til baka. En ég held að það verði kannski seint. Ég hef aðeins áhyggjur af því að við hefðum ekki þurft að vera að stíga þetta skref núna.