148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsaga og landgrunn.

418. mál
[17:52]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð eiginlega að biðjast afsökunar og þakka hv. þingmanni fyrir að minna mig á Rockall og Reykjaneshrygginn. Ekki væri gott að gleyma þeim hagsmunum sem þar liggja. Í báðum tilvikum liggja fyrir mjög sterk náttúrufræðileg, jarðfræðileg, landfræðileg rök fyrir tengingu þessa hluta hafsbotnsins við berggrunn Íslands og landgrunnið. Það er full ástæða til þess að við Íslendingar endurmetum reglulega hvort við göngum nógu langt í því að tryggja hagsmuni okkar. Þjóðirnar í kringum okkur ganga eins langt og þær mögulega geta. Þá þýðir ekki fyrir okkur að ætla bara að vera kurteis og sætta okkur við það sem okkur býðst. Við náðum ekki árangri í landhelgismálum með þeim hætti, við náðum árangri með því að hafa sannfæringu fyrir því að við ættum ákveðinn rétt og að sækja þann rétt. Allri þeirri vinnu er hugsanlega ekki lokið.

Það er rétt að Eyjólfur Konráð Jónsson sem var gríðarlega framsýnn hvað þetta mál varðar og reyndar ýmis önnur mál líka benti einnig á Rockall og færði þar mjög sterk rök og mig minnir að hann hafi rætt Reykjaneshrygginn líka. Það er þess vegna mjög viðeigandi að það olíufélag sem hefur verið að vinna að leit að olíu og gasi á Drekasvæðinu hafi verið nefnt eftir Eyjólfi Konráð Jónssyni og kallað Eykon, en það félag má líta á sem framlengingu á íslenska ríkinu á vissan hátt því að finni það eða önnur félög olíu eða gas á þessum slóðum rennur megnið af því sem kemur fyrir til íslenska ríkisins og þar með íslensks almennings.