148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

Viðlagatrygging Íslands.

388. mál
[18:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir gat um fylgdi umræða um þetta mál í efnahags- og viðskiptanefnd mjög áhugaverð fræðsla um hvernig tjón getur orðið með ólíkum hætti, af völdum náttúrunnar eða framkvæmda o.s.frv., og hvað það getur oft reynst erfitt að meta hvernig tjónið er til komið, þ.e. hver er uppruni þess.

Það var svolítið áhugavert að meðan þessu fór fram, eða um svipað leyti, lék hús nefndasviðs Alþingis á reiðiskjálfi vegna þess að það var verið að sprengja og fleyga berg hérna rétt við Austurvöll þar sem búið er að rífa sal sem ýmist var kallaður Nasa eða Sjálfstæðissalurinn eða ýmsum nöfnum öðrum. Ég hélt reyndar að ég hefði friðað þetta hús fyrir nokkrum árum. En það virðist vera litið fram hjá slíkum hlutum eins og svo mörgu öðru nú til dags.

Jæja. Þarna voru miklar framkvæmdir í gangi og eru reyndar enn, þó á tiltölulega litlum reit. Og þó upplifði maður að þetta væri eins og að vera í jarðskjálfta. Ef tjón hefði orðið á húsinu þar sem við höldum nefndarfundi og þingmenn eru með skrifstofur hefði mátt álykta sem svo að það væri afleiðing af þessum framkvæmdum. En hvað ef það hefði orðið jarðskjálfti um svipað leyti? Þetta gríp ég ekki úr lausu lofti. Það eru til dæmi um það. Við fengum að heyra það í yfirferð nefndarinnar að það hafi verið mikið álitamál, og nokkur tilvik sem vísað var í, ef ég man rétt, hvort tjón hafi orðið af völdum náttúruhamfara eða jarðskjálfta eða vegna framkvæmda. Það gerir þetta allt saman mjög erfitt. Miklar framkvæmdir, og þarf ekkert endilega gríðarlega miklar framkvæmdir til, geta valdið svipuðum áhrifum og náttúruhamfarir. Þá hljótum við, fyrst við erum byrjuð að velta þessu fyrir okkur, að líta til Landspítalans við Hringbraut og þess sem þar er að gerast eða er fram undan. Þar stendur til að fara í að mínu mati hreint óskiljanlega framkvæmd, grafa, sprengja, fleyga, á gífurlega stóru svæði. Reiturinn sem ég nefndi áðan er bara frímerki í þeim samanburði.

Hvar er þetta byggingarsvæði, sem væntanlega verður stærsta byggingarsvæði landsins? Jú, við hliðina á þjóðarsjúkrahúsinu. Sjúklingar munu þá upplifa svipaða hluti og við kynntumst meðan á þessum framkvæmdum stóð, sem reyndar er ekki lokið. Nema hvað þeir verða í grennd við miklu stærri framkvæmd og jafnvel í sumum tilvikum enn nær.

Reyndar fengu menn smá forsmekk af þessu þegar verið var að byggja sjúkrahótelið svokallaða. Þá lék allt á reiðiskjálfi í Landspítalanum, hávaðinn var ógurlegur og jafnvel dæmi þess að þetta hafi sett sjúklinga í hættu. Ég hef heyrt slíkar sögur frá starfsfólki Landspítalans.

Nú hefur þetta hús, sjúkrahótelið sem átti að vera löngu búið að klára, staðið óklætt um alllangan tíma. Spurningin er þá þessi: Með tilliti til þess sem við erum að ræða hér, ef tjón hefði orðið á þessu húsi af þessum sökum, er það þá afleiðing af náttúrunni, umhverfinu, rigningunni eða því hvernig staðið var að framkvæmdinni? Er það eðlileg afleiðing af náttúrunni eða afleiðing þess hvernig staðið var að framkvæmd?

Hvað ef menn klára svo allan þennan heildarkomplex með öllum þeim erfiðleikum sem því fylgja fyrir borgina, samgöngur í Reykjavík, fyrir framtíðarsjúklinga og starfsfólk Landspítalans? Það tjón sem þeir verða fyrir geta þeir ekki sótt bætur fyrir hjá tryggingarfélagi. Það tjón er orðið og orðið til langrar framtíðar.

Þessi umræða sem hefur orðið í kringum þetta mál, hvernig tjón verði til og verði hugsanlega bætt, minnir okkur á að hafa varann á, hafa vaðið fyrir neðan okkur, sjá hvert við ætlum að fara en ráðast ekki í framkvæmdir þar sem tjón er nánast gefin niðurstaða.