148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[20:17]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar spurt er sérstaklega um upplýsingar í skýrslum eða skýrslugerð eru þær auðvitað af mjög skornum skammti á þessum svæðum. Við erum hér að leggja til breytingar sem fela í sér aðstoð við fátækustu ríki heims. Það skiptir máli að við gerum það. Þetta getur skipt gríðarlegu máli fyrir þau svæði sem hér um ræðir.

Varðandi það mál sem hv. þingmaður spyr sérstaklega um er almenna svarið við því að við beitum okkur auðvitað í mannréttindamálum almennt. Það skiptir máli og við gerum kröfur og gerum það sem við getum til að koma þeim sjónarmiðum á framfæri að fólk vinni við mannsæmandi aðstæður og að sanngirni sé gætt í því.

En nákvæmlega hvaða gögn liggja fyrir á grunni þess sem hér er mælt fyrir get ég ekki úttalað mig um í þessum stól. Ég vænti þess að nefndin geti óskað eftir frekari upplýsingum ef hún telur þær skorta og ekki koma fram með nægilega skýrum hætti í greinargerð með frumvarpinu.