148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[20:45]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja á því, sem mér láðist örugglega áðan, að þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæt svör í andsvörum við mig hér rétt áðan. Nú geri ég mér grein fyrir því að hún er hér stödd sem staðgengill og ætla ekki að fara að misnota það með því að gusa upp einhverjum spurningum sem ég veit að hún hefur kannski ekki tök á að svara í fljótu bragði. En það sem ég ætla að segja er að ég er eiginlega enn við sama heygarðshornið og áðan.

Hæstv. ráðherra sagði að við værum í alþjóðasamstarfi og það er alveg rétt. Við erum það. Við erum í hópi með löndum sem hafa árhundraðareynslu af nýlendukúgun, meðal annars, sem ráða töluvert miklu í Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Það þarf ekkert endilega mjög vanþróað land til að hættan sé sú að menn fari inn með góð fyrirheit en svo mikið þekkir maður til að Alþjóðaviðskiptastofnunin er ekki skátafélag, menn eru ekki að þessu bara til þess að gera fátækum þjóðum gott heldur til að hagnast sjálfir Við þurfum ekkert að leita mjög langt aftur. Á sínum tíma, fyrir hálfri öld, voru fyrstu samningarnir sem þessi þjóð hér gerði um raforkusamninga ekki upp á marga fiska. Þeir voru ekki mjög merkilegir. Við erum enn að elta skottið á þeim aðilum sem eru hér með fjárfestingu til að tryggja að þeir greiði eðlilega skatta og skyldur. Við erum ekkert ein um þetta. Írar eru á eftir alþjóðahringjum sem hafa hópast til Írlands og Hollands til að sleppa undan skatti. Þetta er alþjóðlegt vandamál.

Auðvitað eru fátæk og vanþróuð lönd, þar sem stjórnkerfið er vanmáttugt og jafnvel spillt, í enn meiri hættu og enn verr undir það búin að taka á móti mönnum sem hafa árhundraðareynslu af nýlendukúgun og áratugareynslu af því að reka viðskipti hvar sem er í heiminum. Þess vegna legg ég ríka áherslu á að tryggt sé að réttur þessara þjóða sem við erum að fara að rétta hjálparhönd, ef við getum orðað það þannig, sé tryggður. Og auðvitað vill maður og veit að frjáls viðskipti koma til með að lyfta grettistaki fyrir þessar þjóðir sem eru einangraðar núna og eiga vart málungi matar.

Ég las mjög nýlega að Hollendingar setja spírur í potta, fljúga til suðrænni landa, t.d. Afríkulanda, láta pottana standa úti í sólinni í örfáar vikur og blómin náttúrlega þjóta upp eins og í aldingarðinum forðum, flutt til Hollands aftur með svipaðri vél, sett í sellófan — og hvað höfum við? Hollenska túlípana, vesgú. Gjaldgengir hvar sem er í Evrópusambandinu. Þeir uxu bara upp í Afríku. Ekki skilur þetta nú mikið eftir.

Það eru svona dæmi sem maður hræðist. Eins og þessi vondu dæmi sem ég rakti áðan í andsvari mínu: Ég fór aðeins að grufla í hausnum á mér varðandi þetta dæmi sem ég tók með Danmörku í fyrra. Danir bönnuðu innflutning á afskornum blómum frá Úganda, held ég hafi verið, vegna þess að þeir höfðu vissu fyrir því að illa væri farið með verkafólk þar á allan hátt, sérstaklega konur. Það er þetta sem við þurfum að forðast og þetta sem við þurfum að hafa tryggingu fyrir að gerist ekki í okkar nafni. Að við séum ekki hluti af einhverjum samningi sem tekur til fátækustu ríkja í heimi, komum eins og riddarar á hvítum hesti; að fólk eða lönd eða þjóðfélög verði misnotuð í okkar nafni. Það er alveg óþolandi.

Eftir þá sögu sem við eigum sjálf, eftir niðurlæginguna frá 1300–1900 með litlum upprofum, eigum við að skilja þetta ef einhver á að skilja þetta. Við höfum ekki gert mikið af að úthella blóði fyrir landið sem við búum í. Með fullri virðingu fyrir þeim mannslífum sem urðu stríðinu að bráð, t.d. í seinni heimsstyrjöld, höfum við ekki þurft að berjast fyrir þessu landi þumlung fyrir þumlung. Engu að síður vitum við alveg hvað það er að búa undir erlendri kúgun. Þess vegna eigum við að skilja það betur en margir aðrir og taka tillit til þess meira en margir aðrir að koma inn í þjóðfélag sem er vanmáttugt og vanþróað og reyna að kappkosta að það sé ekki misnotað, eins og ég sagði, í okkar nafni.

Svo mikið er víst og það veit maður líka að stórveldi eins og Kína er nú búið að kaupa allt sem er undir jörðinni í mjög mörgum löndum Afríku. Alveg sama hvað það er, silfur, platína, gull, eðalsteinar. Allt. Hvað gera þeir í staðinn? Jú, þeir segjast koma með þróunaraðstoð. Í hverju er hún fólgin? Jú, þeir hafa til dæmis byggt heilar borgir í Angóla þar sem enginn innfæddur getur búið einfaldlega af því að húsnæðið er of dýrt. Og hverjir búa þá þar? Jú, það eru verkamenn frá Kína sem hafa verið fluttir til landsins til að vinna að verkefnunum sem er verið að vinna og eiga í orði kveðnu að vera til hagsbóta innfæddum og þeirra þjóðfélagi.

Það er bara þetta sem ég er að leggja áherslu á, þetta er eitthvað sem við þurfum að varast. Þetta er eitthvað sem við verðum að vita og eitthvað sem nefndin, sem tekur hér við, verður að fara ofan í. Við verðum að vita vissu okkar áður en við undirgöngumst einhver skilyrði sem við kærum okkur ekki um. Nú er svo komið, eins og ég rakti áðan, að jafnvel í Evrópu er verið að misnota fólk, einkum konur, sem eru fluttar frá fátækari hlutum Evrópu og látnar vinna við upptöku grænmetis og eru svo misnotaðar í þokkabót.

Eitt enn þá: Hv. þm. Óli Björn Kárason ýtti við nokkru sem er í kollinum á mér, og við vorum að tala um, að iðnaðarþjóðir hafi fyllt markaði þróunarríkja af ódýrari vöru og þar með rústað þeirra eigin framleiðslu. Eitt sorglegasta dæmið sem ég veit um þetta er Haítí. Á Haíti var fyrir jarðskjálftann mikla, fyrir nokkuð mörgum árum, sjálfsþurftarbúskapur þar sem menn ræktuðu hrísgrjón bókstaflega í bakgarðinum hjá sér. Auðvitað eyðilagðist þetta mikið í jarðskjálftanum. Hvað gerðist þá? Jú, Bandaríki Norður-Ameríku, útvörður hins frjálsa heims, í fararbroddi frjálsra viðskipta í heiminum, gusuðu þangað inn hrísgrjónum, niðurgreiddum, sem voru framleidd í Arkansas. Hvað gerðist? Þeir rústuðu þessari heimaframleiðslu gersamlega og kipptu tilvistargrundvellinum undan þessu fólki sem var nýstigið upp úr jarðskjálfta og hefur ekki náð sér á strik síðan. Meðal annars út af þessu.

Þetta er eitt í viðbót sem við þurfum að kappkosta að verði ekki gert í okkar nafni. Alveg eins og við þurfum að verjast því sjálf að það sé ekki gert hér, eins og fram kom í ræðu áðan. Þó að þetta sé gott mál og sett fram af góðum hug þurfum við samt að hafa varann á. Um leið og af máli eins og þessu hlýst ógæfa verðum við náttúrlega, sem þátttakendur í þessu máli, þátttakendur í þeirri ógæfu. Við viljum ekki leiða ógæfu yfir annað fólk.

Þetta mál er gott en það þarfnast þeirrar árvekni sem ég hef gert grein fyrir í ræðu minni. Við þurfum að vera alveg viss um að við séum ekki í hópi þjóða sem misnota þá aðstöðu sem þetta fátækasta fólk á jörðinni býr við.

Maður hefur stundum á ferðum erlendis verið að kaupa flík sem kostar eitt pund, bómullarflík. Ég verð að viðurkenna að í hvert skipti sem ég kaupi slíka flík hugsa ég með mér: Hvað fékk bómullarbóndinn? Hvað fékk sá sem spann? Hver spann? Var það barn? Eða var það háöldruð kona sem er búin að þræla allt sitt líf? Það er eins og við gerum okkur ekki grein fyrir því stundum hversu vel við erum sett. Það birtist af því mynd fyrir nokkrum árum þar sem menn í Pakistan, frekar en Bangladesh, voru að lúta mottur sem eru seldar í verslunarkeðju, m.a. á Íslandi. Þeir stóðu upp í mitti í klór til að motturnar sem við kaupum verði nógu hvítar.

Því segi ég allt þetta að ég held að við séum ekki nógu varkárir neytendur þegar við erum að kaupa ýmsar vörur. Við horfum ekki á það hvernig varan er fengin, hverjir unnu við hana, við hvaða aðstæður. Við horfum bara á að hún sé ódýr og þess vegna kaupum við hana. En samviskan er í sjálfu sér engin. Við lokum augunum fyrir því að á bak við eitt grænmetiskíló eða einn T-bol er kannski saga af misnotkun og grimmd. Okkur er slétt sama af því að varan er ódýr. Við látum okkur hafa það og lokum augunum fyrir þessu.

Í þessu máli hér, sem er vissulega gott, skulum við ekki misstíga okkur. Við skulum ekki verða þekkt af því að fara inn í vanþróuð lönd eins og ribbaldar fyrri alda, sem voru nýlendukúgarar mann fram af manni öldum saman. Það er ekki félagsskapur sem við eigum að vera í og ekki aðferðir sem við eigum að beita, ekki aðferðir sem við eigum að undirgangast eða samþykkja.

En með þessum fyrirvörum öllum vona ég að málið fái góða og vandaða umfjöllun í nefndinni. Ég hvet nefndina eindregið til að kalla eftir öllum mögulegum upplýsingum um akkúrat þau atriði sem ég hef tæpt á, svo að við séum alveg viss, eins viss og við getum verið, um að við séum ekki að taka þátt í óþokkaskap gagnvart þeim meðbræðrum okkar sem eru kannski viðkvæmastir og geta síst hönd fyrir höfuð sér borið.