148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[21:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Maður er alltaf heppinn þegar maður kemur beint á eftir þeim sem maður er að spyrja spurninga, þá getur maður haldið áfram með það sem maður var að tala um. Það er mjög heppilegt. Mig langar að tala um þetta mál fyrst í samhengi við annað mál sem er hérna síðar á dagskrá, þingsályktunartillögu um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja. Ég veit að það er annað mál og mér sýnist reyndar ekki líklegt að við komumst í það í kvöld, því miður, en ég verð að nefna það í samhengi við þetta vegna þess að mér finnst það skipta máli. Það er samhengi hérna á milli. Samhengið er þetta: Í því máli sem við erum að fjalla um er verið að tala um einhliða niðurfellingu tolla gagnvart 47 ríkjum, svokölluðum Least Developed Countries. Kannski forseti hjálpi mér með þýðinguna á þessu, ég hreinlega man hana ekki, en þetta eru sem sé minnst þróuðu ríkin 47. Þarna eru ríki eins og Síerra Leóne, Afganistan og allnokkur önnur lönd og þokkalegur meiri hluti þeirra í hinni ágætu heimsálfu Afríku. Þar er stjórnmálaástandið alls konar. Sums staðar er það skárra en maður heldur og sums staðar verra en maður veit af. En ég er þeirrar skoðunar að tollar, eins og þeir sem við erum með hérna á Íslandi, séu í eðli sínu slæmir, óháð því hvernig stjórnmálaástandið er í þessum löndum, þó með þeim fyrirvara að ég skil ef menn ætla að nota tollkerfi sem einhvers konar óvild gagnvart öðru ríki og lít að sjálfsögðu ekki á það sem jafn langt gengið og viðskiptabann, en það að taka toll af einhverju finnst mér ekki réttmætt í eðli sínu. Ég skil tekjuskatt og er hlynntur honum, skil virðisaukaskatt og er hlynntur honum, gæti alveg gagnrýnt bæði kerfin út frá kerfislægum sjónarmiðum og áhrifum sem þau hafa á hagkerfið, en mér finnst hvort tveggja siðferðislega í lagi. Mér finnst ekkert siðferðislega rangt við að innheimta tekjuskatt eða virðisaukaskatt. Mér finnst hins vegar siðferðislega vafasamt að taka tolla.

Mér finnst það líka valda hálfkjánalegum vandræðum sem ég hef tekið eftir í samræðum mínum við fólk sem reynir að gera hluti hér og byrjar mjög smátt. Það þarf að kaupa hluti frá útlöndum og lendir þá í að þurfa að borga himinháa tolla. Og tollurinn er bara fyrir að mega vera með vöruna hérna. Hún má vera til, maður má meira að segja eiga hana, svo fremi sem hún er annars staðar. Þessa pælingu er mér almennt illa við, hvort sem hún varðar fólk eða upplýsingar eða hluti.

Eins og ég segi erum við samt sem áður með landamæri, af illri nauðsyn, og líka alls konar takmarkanir á upplýsingum. Kannski þurfum við af og til tolla af illri nauðsyn. Í eðli sínu þykja mér þeir slæmir og mér finnst þurfa mjög góða réttlætingu fyrir því að hafa þá yfir höfuð þannig að ég er sjálfkrafa hlynntur þessu máli. Þótt það næði yfir öll lönd heimsins væri ég hlynntur því, með fyrirvörum um flækjur sem kæmu í gegnum EES-samninginn og aðra samninga sem við erum með og að því gefnu að ekki kæmu upp flækjuatriði sem oft koma upp þegar maður er með svona háleitar hugsjónir yfir allan heiminn. Við þeim er svo sem að búast. Ég segi þetta allt með fyrirvara um slíkar flækjur.

Hins vegar er í málinu sem við erum vonandi að fara að ræða á eftir ekki um að ræða einhliða niðurfellingu á tollum hjá Íslandi heldur fríverslunarsamning við Filippseyjar. Það er margt gott hægt að segja um Filippseyjar, sér í lagi filippseysku þjóðina en filippseyska þjóðin hefur núna yfir sér algjörlega sturlaðan brjálæðing, fjöldamorðingja. Ég er að reyna að finna fúkyrði sem duga en má samt segja í pontu. Hann heitir Rodrigo Duterte. Það að gera við það ríki fríverslunarsamning núna felur í sér fullyrðingar sem mér finnst ekki mögulegt að styðja. Í þeirri þingsályktunartillögu kemur fram — ég biðst forláts á að vera að ræða tvö mál í einu en þau eru skyld — að í samningnum sé áréttuð sú skuldbinding EFTA-ríkjanna og Filippseyja að styðja við lýðræði, réttarreglur, mannréttindi og mannfrelsi í samræmi við skyldur sínar að þjóðarétti, m.a. eins og fram kemur í sáttmála og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Það vill svo furðulega til, virðulegi forseti, að Duterte hefur bara hótað því að ganga úr Sameinuðu þjóðunum. Hann hefur að sönnu ekki kallað eftir mannréttindabrotum heldur stært sig af þeim, lofað því að náða menn fyrir morð og náða sjálfan sig í leiðinni. Það eru engin takmörk fyrir vitfirringunni sem hefur liðist hjá þessum vitfirrta brjálæðingi.

Þá finnst mér ekki í lagi að gera einhverja samninga við slíka aðila, sér í lagi með svona orðalagi. Það er móðgun við alla aðra samninga sem innihalda sambærilegar klausur og eiga að þýða eitthvað. Fyrir utan það hef ég enga trú á því að yfirvöld Filippseyja muni virða þennan samning út frá því sem í honum stendur. Það liggur fyrir að þau gera það ekki. Það er ekki einu sinni kenning eða tilgáta, yfirvöld þarna stæra sig opinberlega af því að ætla að brjóta í bága við þau góðu gildi sem þarna er að finna.

Það er svo sem ekki við þau að sakast sem undirrituðu þennan samning á sínum tíma vegna þess að það var 28. apríl 2016. Ég hefði ekki mótmælt því þá. 30. júní 2016 komst Duterte til valda. Ég skil mætavel að þetta hafi átt sér stað og samningurinn er í eðli sínu jákvæður, hann er gott fyrirbæri. Svo breytast aðstæður og stundum kemst morðóður brjálæðingur til valda eins og Duterte og þá bara verður maður að hætta við. Það er mín afstaða.

Sumir gætu sagt um þessi tvö mál að það væri samt sem áður alltaf jákvætt að hafa fríverslun, hafa enga tolla, til að hjálpa til við ástandið á svæðinu sem maður er að tala um. Þetta kom mjög mikið fram í umræðunni um fríverslunarsamning okkar við Kína á sínum tíma og var mátulega heitt um það mál á þingi. Það sýnir kannski best hversu margslungin svona fríverslunarmál geta verið því að það eru ekki alveg sömu forsendur gagnvart Filippseyjum og voru gagnvart Kína. Áhyggjur mínar af fríverslunarsamningnum gagnvart Kína voru þær að stærðarmunur þessara tveggja þjóða var svo geigvænlegur að við gætum aldrei haft einhver áhrif til bóta á mannréttindi í Kína. Ísland færi aldrei að segja við Kína: Hey, nú þurfið þið að taka upp aðeins meira tjáningarfrelsi, annars hættir Ísland að versla við ykkur. Það yrði bara hlegið að okkur ef það væri tekið eftir því yfir höfuð sem ég efast um vegna svakalegs stærðarmunar á þessum þjóðum.

Það er ekki alveg það sama að segja um Filippseyjar. Það er ekki þvílíkt stórríki að stærðarmunurinn sé alveg svakalegur. Ég fullyrði hins vegar, og vísa í orð Dutertes sjálfs, að við erum ekki að fara að gera neitt með þessum fríverslunarsamningi til að bæta ástandið á Filippseyjum, ekki nokkurn skapaðan hlut. Einstaklingur sem ræður yfir landi og stærir sig af því að kalla eftir fjöldamorðum og ætla að náða þá sem stunda þau fær ekki símtal frá Íslendingum og hugsar með sér: Hm, kannski ætti ég að hugsa minn gang. Kannski ætti ég að hætta að kalla eftir fjöldamorðum. — Það er ekki að fara að gerast þannig að ég held ekki að þau rök haldi vatni.

Aftur yfir í þetta mál, einhliða tollaniðurfellingar gagnvart 47 ríkjum sem eru með alls konar stjórnarfar, sums staðar verra en maður veit af, sums staðar skárra en maður gæti haldið. Það er ekki neinn sérstakur liður í því að ætla að hafa áhrif á stjórnmálaástand þar. Ég sé það mál sem við ræðum hér miklu frekar sem spurningu um hvort við ætlum að hjálpa hinum almenna borgara á þessum svæðum við að koma sér upp úr fátækt og nýta sín tækifæri til að eiga stærra verslunarsvæði. Ég lít á það öðruvísi vegna þess að í því að fella niður tolla sé ég það ekki sem handaband eins og maður gerir þegar maður býður fríverslunarsamning, þá er það handaband sem byggir á einhverjum ákveðnum grundvelli þar sem tveir eða fleiri aðilar koma sér saman um einhver sameiginleg skilyrði, það er nokkuð sem við gætum ekkert endilega gert við öll þessi 47 ríki, ef markmiðið væri að reyna að bæta stjórnmálaástandið þar. Með því að fella niður tolla einhliða, gagnvart eins mörgum og við getum, þorum og viljum, lít ég svo á að það myndi hjálpa almenningi í þessum löndum. Reyndar er ég ekki viss um að yfirvöld þar myndu endilega einu sinni taka eftir því. Ég held að það hefði engin áhrif á þau. Ég tel þetta mál vera til bóta þótt ég telji fríverslunarsamninga ekki alltaf vera það. Það er annað eðli á bak við þessar tvær aðgerðir sem ég geri mikinn greinarmun á.

Einu sinni var ég að ræða við spakan mann um þessi mál. Hann sagði við mig að maður ætti ekki að senda peninga til fátækra Afríkuríkja. Ég hneykslaðist pínulítið á þessu, fannst þetta frekar grimmt af honum og hann sagði: Maður á að kaupa hluti af fátækum Afríkuríkjum. Ég veit ekki alveg hvort heimsmynd mín sé það einföld að þetta virki einfaldlega þannig en mér finnst samt eftir einhverja íhugun mjög mikilvægur punktur í þessu sem er sá að efnahagslegt sjálfstæði eða möguleikar einstaklinga til þess að geta vaxið, blómstrað og fengið að njóta ávaxta erfiðis síns standi og falli með því að hægt sé að versla með fyrirbærið nema það sé sjálfsþurftarbúskapur eða eitthvað því um líkt. Allt gott og blessað með það, en það verður þá ekki þróað hagkerfi. Þróuð hagkerfi þurfa verslun. Það er eina leiðin til að búa til almennilega sérhæfingu og sérhæfing er eina leiðin til að búa til þróuð hagkerfi, a.m.k. eftir því sem ég best veit og les. Þegar við einfaldlega gefum hluti, sem er góðra gjalda vert, það er göfugt og jákvætt og við eigum að gera það, að mínu mati, held ég að það sé yfirleitt betra, kannski ekki alltaf en yfirleitt, ef við getum komið á viðskiptasambandi við fólk sem getur nýtt krafta sína til að búa til einhvers konar verðmæti sem hægt er nota til að hjálpa því upp úr slæmu efnahagsástandi, ýmist til lengri tíma eða varanlega, helst auðvitað varanlega. En gjöfin rennur út. Það er stóri munurinn. Gefi maður eitthvað þarf maður að halda áfram að gefa, annars rennur gjöfin út, en ef það er viðskiptasamband heldur það áfram og byggir upp innviði, þar á meðal þekkingu og reynslu sem er hægt að nýta til áframhaldandi uppbyggingar. Þarna á er líka grundvallarmunur án þess að draga nokkuð úr því að við eigum að gefa. Ég hef vissulega margoft í pontu kallað eftir að við gefum meira en viðskiptin eru gríðarlega mikilvægur hluti af þessu.

Mig langaði aðeins að nefna þetta. Kannski er alveg ljóst að ég er hlynntur málinu og þó að þarna væru fleiri lönd og þó að þau væru ekki öll í þessum hópi Least Developed Countries, minnst þróaðra ríkja. Ef við værum að koma upp þjóðríkinu í dag í fyrsta sinn held ég að við værum ekki með tolla. Ég held ekki að okkur dytti það í hug. Ég held að við sæjum fyrir okkur að það stíflaði svo mikið af góðum hlutum, þvældist svo mikið fyrir okkur að okkur dytti ekki í hug að setja þá á.

Margt slíkt má segja um ýmsa hluti, þar á meðal ýmsa framfærslu á höfundarétti, svo ég nefni handahófskennt dæmi. Það eru margir hlutir sem við kannski gleymum að séu slæmir vegna þess að við venjumst þeim. Hagkerfin okkar byggjast upp út frá þeim sem gefnum hlut. Þá getur verið erfitt að vinda ofan af þeim. Eins og ég vona að ég hafi rakið ágætlega áðan er þetta allt sagt með þeim fyrirvara að það getur verið erfitt að vinda ofan af vondum kerfum. Landamæri eru dæmi um illa nauðsyn. Minn draumaheimur væri án landamæra en það er ekki þar með sagt að það sé einfaldlega hægt að afnema þau á einu bretti. Það er flóknara en svo. Mér finnst líklegt að það sé eins með tolla.

Síðast en ekki síst ætla ég að nota seinustu sekúndurnar af þessari ræðu til að nefna nýtt fyrirbæri sem fólk er stundum að velta fyrir sér hvort ætti að vera með tolla. Það er internetið. Við erum svo heppin að internetið er frekar nýtt og ekki enn búið að koma á það öllum þeim böndum sem yfirvöldum getur dottið í hug að koma á. Vissulega er það reynt en sem betur fer mistekst það yfirleitt. Það koma upp hugmyndir um að setja takmarkanir, skipta okkur öllum niður í einhver tiltekin hólf þannig að við getum ekki eitthvað, ekki talað hvert við annað, ekki sótt okkur upplýsingar, ekki verslað, ekki gefið og því um líkt. Ég tel slíkar hugmyndir í eðli sínu slæmar. Við eigum að vinna í átt að því að losna við höftin. Ég tel þetta góða mál vera í þá átt, mun augljóslega styðja það og vona að þau komi fleiri.