148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[22:34]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir ræðu hans. Það er margt áhugavert sem kom fram í henni. Mig langar að forvitnast um eitt og annað hjá hv. þingmanni, sem var utanríkisráðherra hér ekki fyrir margt löngu og þekkir þess vegna sérstaklega vel umhverfi þróunaraðstoðar og nefndi einmitt í ræðunni áðan að hann hefði unnið að sameiningu Þróunarsamvinnustofnunar og þróunarsviðs utanríkisráðuneytisins þegar hann var þar.

Það sem mér leikur hugur á að vita er tvennt. Í fyrsta lagi: Hvaða aðgerðir, að fenginni reynslu í þessu umhverfi, hann telji skila mestu á þessum efnahagslega vanþróuðu svæðum.

Í öðru lagi: Hv. þingmaður var einn af forvígismönnum svokallaðrar Barbershop nálgunar á umræðu um jafnréttismál, hann kom örlítið inn á þetta í ræðunni áðan, hvaða áhrif telur hann jafnréttismál hafa á þann árangur sem næst á heimasvæðum hverrar þjóðar? Hvaða hlutverk getur Ísland, ef eitthvert, spilað í þeim efnum? Ef maður rennir augunum yfir þennan 47 þjóða lista sem enn er á þessum LDC-lista þá grunar mann að jafnréttismál séu þar víðast býsna bágborin.