148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

afgreiðsla þingmannamála úr nefndum.

[15:39]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég kem hérna upp og tek undir með kollegum mínum, þetta er ólíðandi ástand sem er í nefndinni núna. Það hefur verið talað um það oftar en einu sinni að það þurfi að vera einhver sátt um málin til þess að þau fái afgreiðslu úr nefndinni. Þetta er ekki í lagi. Við afgreiðum mál úr nefnd til þess að koma þeim í lýðræðislega umræðu á þingi. Það þarf ekki að vera sátt um þessi mál. Þá eru þau bara felld. Það er Alþingi sem ákveður hvort mál nái í gegn eða ekki. Það á ekki að svæfa þau í nefndinni. Þetta eru ekki vinnubrögðin sem ég bjóst við frá þeim flokkum sem eru í ríkisstjórn. Ég bjóst við að þessi meðferð yrði betri og þetta yrði faglegra. Ég bið um að við hættum þessu. Sumir eru bara með eitt mál sem þeir vilja fá í gegn. Það er talað um að ekki sé hægt að afgreiða þetta út af því að allir þurfi að vera sáttir við álitið. Það er framsögumaður málsins sem ber ábyrgð á sínu áliti. Það þarf ekki að vera sátt um það. Þess vegna erum við með minnihlutaálit. Þetta gengur ekki að vinna svona. Við verðum að breyta þessu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)