148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:05]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég vil taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Birgir Ármannsson kom inn á áðan, þetta væru orðnir samningar um hvaða mál mættu fara úr nefndum, þ.e. mál sem búið er að ljúka umræðu um, allir sammála um það, við komin með þær upplýsingar sem við þurfum í ferlinu til að byrja að vinna nefndarálit, upplýsingarnar eru komnar, menn eru byrjaðir að vinna nefndarálit, nefndarálitin eru tilbúin. Afstaða í málinu liggur fyrir. Hvort þau mættu þá fara úr nefndum átti að vera samningsatriði. Það er skiljanlegt, en það er ekki málefnalegt. Það er ekki málefnalegt að vinna mál þannig.

Hv. þm. Birgir Ármannsson segir að þessir samningar hafi ekki náðst, þeir náðust ekki í málinu vegna þess að það séu mál sem stjórnarflokkarnir vilji ekki ræða. Þannig að málin fara ekki frá nefnd út af því að stjórnarflokkarnir vilja ekki að þau mál sem þeir þurfa að ræða hérna inni í þingsal fari út. Það er ekki málefnalegt. Hvað er þá hægt að gera?

Er það málefnalegt að einungis þau mál sem forseti Alþingis ætlar að setja á dagskrá þingsins verði bara rædd? Við viljum (Forseti hringir.) líka hafa eitthvað um dagskrána að segja og sér í lagi að það sé málefnaleg afgreiðsla þeirra mála sem þingmenn (Forseti hringir.) leggja fram.