148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:21]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það er sannarlega af ýmsu að taka og mörg gullkornin sem hafa hrotið hér. Ég hef sem betur fleiri tækifæri en mig langar til að nota þetta til að taka undir með hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur þar sem hún talaði um þörfina á því að við þingmenn fengjum að ræða önnur mál en þau sem fara í gegnum þær nefndir sem við sitjum í þegar þau eru tilbúin. Um þetta snýst þetta.

Hér hefur töluvert verið rætt um að ríkja þurfi sátt um mál og menn eru misjafnrar skoðunar á því hverjir það eru sem eigi að vera sáttir hverju sinni. En mig langar að nefna ákveðið dæmi. Þannig er að í umhverfis- og samgöngunefnd var mál afgreitt, þingmannamál, í alveg dásamlegri ósátt. Það voru hvorki meira né minna en þrjú minnihlutaálit. Málið var afgreitt, nefndin er enn starfhæf, heimurinn er enn sirka á sínum stað, þingið enn að störfum og enginn dó. Ég mæli með því að menn líti aðeins á þetta dæmi. Þetta tókst alveg.