148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Vilhjálmur Árnason nefndi áðan að hann hefði einhvern tímann lagt fram þingmannamál sem talað hefði verið mikið um í pontu. Það var þæft, segjum bara eins og það er. Hann er væntanlega að tala um áfengismálið sem hann lagði fram á þarsíðasta kjörtímabili. Þá var ég einmitt á þingi og man mjög vel eftir því máli. Ég hef ávallt sagt við fólk að það sé áhugavert mál, ekki endilega efnislega, heldur vegna þess hvað það gerir þinginu; stjórnin klofnar, stjórnarandstaðan klofnar, nefndastörf fara í uppnám og þingsalurinn er alltaf upptekinn í því tiltekna máli. Það var einstakt mál að því leyti.

Það sem gerðist varðandi það mál var að allsherjar- og menntamálanefnd beið með að taka það út og allt varð vitlaust. Þar á meðal var hv. þingmaður sjálfur sem kvartaði sáran yfir því að málið fengi ekki sína lýðræðislegu meðferð hér. Það var hv. þm. Vilhjálmur Árnason. Hann gaf sér að markmiðið væri að tefja málið og það var dagsatt hjá honum. Markmiðið var hins vegar ekki að eyðileggja málið, það vantaði bara frekari gögn. Þau komu og málið var afgreitt (Forseti hringir.) úr nefnd. Það var (Forseti hringir.) gott og þannig átti það að vera. Þannig á það áfram að vera. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)